Sannleikur hversdagsins

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Pæjuferð á Hnjúkinn

Skírdagur rann upp eins og hunangsfluga að vori. Eftir að hafa náð í Villý pæju og skutlast út um víðan bæ til að ná í nokkra lífsnauðsynlega hluti fyrir ferðina var lagt af stað með peyjanum Sissa á hans hrikalega fjallatrukk. Örnólfur betur þekktur sem Ölli var nú soldið svekktur að fá ekki að fara með. Austur var haldið og komið seinni part dags á áfangastað. Við ákváðum að skreppa aðeins á klifurparadísina Hnappavelli af því að veðrið var með eindæmum gott. Reyndar voru klettarnir komnir í skugga þegar við loks komum þangað og smá rok en við létum það ekki á okkur fá. Sissi leiddi upp leið sem var ca.5.6 og svo rétt rassgataðist ég upp þarna líka en mikið djö. var kalt, Villý fór áleiðis upp líka en svo ákváðum við að drífa okkur á fyrirheitna staðinn Skaftafell áður en að bollurnar voru frystar af (balls freezed off). Frábært að byrja páskafríið og hita upp fyrir pæjuferðina með smá klöngri.
Í Skaftafelli voru fyrir nokkrir Hafnarfjarðarskátar, peyinn Freysi og einhverjir fleiri sem földu sig hér og þar. Herdís og Anna pæjur komu seinna um kvöldið og fleira sniðugt fólk. Eftir að hafa skellt upp tjaldinu og fundið til búnaðinn fyrir morgundaginn var farið að sofa. Vekjaraklukkurnar voru stilltar á ókristilega snemman tíma eða hálffimm-fimm.
Í morgunsárið var litið til fjalla og var útlitið ekki eins gott og í 66gráðurnorður auglýsingunum því þoka lá yfir hnúknum þótt ekki væri himininn neitt sérlega þungbúinn annars. En við vorum nú ekki komnar í Skaftafell til þess að liggja í leti í tjaldútilegu og keyrðum upp að Virkisjökli þar sem pæjuferðin hin fyrsta á hæsta fjall Íslands átti að hefjast. Þangað komu líka Hafnarfjarðarskátar með bretti á baki og hópur af maraþonhlaupurum sem voru í sömu erindagjörðum og við. Brottför 7:30, brottfarendur: Anna, Herdís, Villý og ég. Við komum að jöklinum og skellum á okkur mannbroddum og gengum upp Virkisjökul, fyrst yfir hvítan hreinan ósprunginn jökul og svo yfir sauruga aura sem gerðu sitt til þess að láta broddana líta vel notaða út. Þótt maður gangi yfir saurugar jökulurðir þá tekur maður ekki brodda af sér þar sem maður er enn á jökli og jöklar geta verið varasamir. Eftir að hafa farið yfir meiri hvítan ís kom að því að fara niður af þessarri jökultungu til að komast að jöklinum annars staðar. Svo var gengið yfir urð og grjót þar sem göngustafirnir voru afsveinaðir. Ég hafði alltaf haft fordóma gagnvart göngustöfum en eftir þessa ferð þá er ég komin á það að þeir nálgist það að vera vatn hins þyrsta í eyðimörkinni. Vá þvílíkur lúxus að vera með þessa brilliant uppfinningu. Skátarnir og maraþonhlaupararnir voru á undan okkur en við sáum þá aftur í Brekku dauðans sem leiðir upp að Kaffikletti (1200m hæð). Þegar við komum uppí brekkuna þá fórum við í öryggislínu sem við vorum í restina af ferðinni á jöklinum. Ferðin upp var laaaaangt labb. Veðrið var hrikalega gott, logn og blíða og fullt af þoku reyndar en þessi leið hefur góð kennileyti. Maður gengur meðfram Hvannadalshrygg og þegar maður er kominn að risastórum “kletti” sem heitir Dyrhamar þá er maður alveg að koma að hnjúkinum. Allir klettar og hamrar voru þaktir með grýlukertum sem var bæði stórfenglegt og fagurt á að líta og þegar þokunni létti fyrir neðan okkur sáum við fagurskorna jökulskál með öllum sínum sprungum og brestum. Öðru hvoru á leiðinni dundu við hrikalegar drunur falljökla sem mögnuðu upp orkuna í æðum okkar. MÖGNUÐ þessi náttúra okkar.
Þegar við komum að sjálfum hnúknum sáum við bretti og poka frá hinum og maraþonhlaupararnir voru að koma niður þegar við vorum að leggja af stað síðasta spölinn upp og svo mættum við skátunum þarna líka. Toppað var um hálfsex. Svo var haldið niður. Það var mun skemmtilegra en að fara upp. Mikil sólbráð gerði það að verkum að snjórinn var mjúkur og djúpur. Við næstum skíðuðum við niður göngustafi í hönd og harða skó á fótum. Maraþonhlaupararnir hlupu víst niður og hinir brettuðu eða skíðuðu. Maður fílaði sig sem jólasvein á leiðinni til byggða ÍHA með poka fullan af skemmtilegu dóti... Þegar við komum loks niður Brekku dauðans var farið að rökkva og komum á jökultunguna síðustu þegar var orðið dimmt. Svo skröngluðumst við yfir hana og komum niður á fasta flöt hálftólf um kvöldið. Ástæða þess hve seinar við vorum upp var aðallega sú að aðeins of mikið af drolli var með í farteskinu og myrkrið í lok ferðar tafði líka fyrir. 10 tímar upp og 6 tímar niður hmmmm ekki mikið til að vera stoltur af en án efa verður þessi tími bættur í nánustu framtíð. Að minnsta kosti var þetta hin prýðilegasta leið til þess að eyða föstudeginum laaaaaanga.
|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?