Sannleikur hversdagsins

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Það eru komnar nýjar myndir...

...inná myndasíðuna mína. Þar kennir ýmissa grasa t.d. úr Laufskálaréttum, hellaferð á Snæfellsnes, Hveravallaferð og svo náttúrulega Noregsferðinni.


Rósum rignir aldrei af himnum ofan. Ef þú vilt fleiri rósir en til eru verður þú að gróðursetja fleiri rósarunna.

-Georgia Elliot
|
Það getur nú ekki verið...

...að maður sé orðinn fullorðinn þegar manni finnst eftirfarandi ekki gott: súr sviðasulta, hákarl, súrir púngar, súrt slátur, súr hvalur (hrollur), kindaaugu, lifur, koníak og wiskey. Reyndar er svínasulta og sviðasulta ekki svo slæmt ósýrt og kannski eru það fyrstu merki fullorðinsáranna að smakka á einhverjum svona furðumat... Damn verður maður ekki ungur að eilífu! En það má nú segja það að ég er nú alveg farin að skilja af hverju lífaldurinn var svona lágur hérna á Íslandi fram eftir öldum. Ég hefði örugglega líka svelt mig í hel...

Annars fórum við nokkrar héðan á Nornakvöld hjá Liljunni í kvöld sem var afar skemmtilegt. Þarna höfðu tekið sig saman fullt af fólki með ýmsa hæfileika s.s. cranio, heilarar, sjáandi, bolla- og tarotlesarar og voru að kynna sína hæfileika. Svo fengu gestir að fara til þeirra í 10 mín. Mjög gróskumikið starf sem þarna er unnið á andlega sviðinu enda var troðfullt hús. Þvílík orka samankomin í þessu húsi.

Já, svo er ég að spá í að athuga hvort hún Alda Laufey vilji ekki vera matráðskona hérna hjá mér. Hún býr til ógó góðan mat, namm!

Ætlar enginn að gubba yfir nýju litina á blogginu?
|

föstudagur, janúar 27, 2006

Loksins loksins...

...veit ég hvernig sniglarnir mínir líta út að innan og þarf ekki að framkvæma skurðaðgerð á þeim til þess að komast að því. Ég var sem sagt að læra um snigla í dýrafræði hryggleysingja áðan.
Kennarinn hann Björn sem ég hef vitnað í áður er algjör snillingur. Ég er búin að læra hjá honum að:
-Ef maður ætlar að borða ánamaðka er líklega betra að hafa þá á meyru fæði fyrir slátrun svo þeir verði ekki sendnir mjög.
-Það er áhættusamur lífsmáti að vera sníkjudýr og litlar líkur á því að lifa af. Þess vegna þurfa þau að hafa mikla viðkomu (sem sagt að stunda kynlíf eins mikið og þau geta).

Annars var ég að breyta litunum og stafastærðinni á blogginu mínu því hitt var orðið soldið slappt. Þetta er kannski ekkert smárra:) Tja, amk er sumt af letrinu orðið hæft fyrir sjóndapra alveg óvart. Ekki það að sjóndaprir eru líka velkomnir á síðuna. Aðalliturinn heitir Sandybrown svo það er komið svona meira svona beach þema í bloggið...
|

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Hver fann eiginlega upp kaffi?

Eftir kaffihlé drakk ég alltof mikið af kaffi í dag til að halda mér vakandi og núna get ég ekki sofnað... Bætti inn myndum á myndasíðuna ef einhver hefur ekkert að gera:)

Helgin var frábær á sinn einstaka hátt, Alda bjó til kyngimagnaða pizzu og við horfðum á Eurovision með Oddu. Ég vil að Ómar Ragnarson vinni, hann er náttúrulega náttúruhetja og flautaði líka ekkert smá vel uppi á sviði. Það er nú ekki heldur eins og margir hafi flautað uppi á sviði í Eurovision.. Kjósum Ómar, hann er rokkari og hann á það skilið!

Farið var líka á laugardagskvöldinu í Mission Hvanneyri - björgum ruslagámunum áður en bílarnir fjúka á þá. Við Vaggi og Lilja földum þá fyrir bílunum bakvið stiga svo þeir myndu ekki eyðileggjast. Svo hringdi Heiða og þá var hjá henni gömul vinkona sem ég hafði ekki hitt í 15-18 ár. Við vorum ekki alveg vissar hvað það var langt síðan. Það var ótrúlega skemmtilegt að hitta hana aftur:) Þar var svo singstar sem lifði í til um hálffimm...

Á sunnudeginum var svo björgunarsveitarþema. Farið var á milli veðurhryðja undir Borgarfjarðarbrúnna til þess að festa ljósleiðara. Tveir að festa og við hin á öryggisbátum, ágætis ölduhæð og dásamlegt finna pusa yfir bátinn. Um kvöldið var svo farið í línuvinnu, kominn tími til að rifja svoleiðis upp...

Já, hérna kemur eitthver staðreyndaklukkleikur sem ég svaraði aldrei en ætla að gera núna af því ég get ekki sofið... Set bara leyninafnið mitt á það svo það fattist ekki að þetta sé um mig.

5 staðreyndir um Hal Animal
1. Hal er yfir dvergastuðli!
2. Hal borðaði fiskiflugur þegar hún var lítil, sem útskýrir margt!
3. Hal er kókómjólkurfíkill!
4. Hal borðar ekki soðnar rúsínur!
5. Hal er VÍST tvítug og meira að segja búin að vera það í mörg ár!
Okey enginn verður píndur til að gera hið sama en endilega skrifið samt 5 staðreyndir um ykkur c",)
|

mánudagur, janúar 23, 2006

Á þessarri vefslóð má sjá og heyra frábæra íslandkynningu hjá honum Quentin Tarantino í spjallþætti í Bandaríkin sem heitir Late Show with Conan O'Brien. Við getum verið svo stolt af því að vera við...

Quentin ofsaspenntur fyrir Íslandi...
|

laugardagur, janúar 21, 2006

A fish called Valdi

Það er undarlegt að vera heila helgi á Hvanneyri. Stefnan var að læra og læra, og hvað gerist? Tja, ég er að standa mig mjög vel í áramótaheitunum (hefði sennilegast átt að bæta lærdómi inní). En ég er allavegana að rækta vini og fjölskyldu, búin að hringja, skrifa póstkort, fara í heimsóknir, skrifa emil, bjóða í mat, fara á barinn á Hvanneyri í pílukast með nokkrum hressum félögum. Entist ekki mjög lengi eða til kl.2. Svo átti að fara að draga mig í meira partístand kl.5 en þá var mig að dreyma svo mikið að ég var ófáanleg á fætur fyrir utan það að það var bara eiginlega komin nótt...hmmm
Reyndar er ég ekki alveg að fara eftir því að taka ekki til í íbúðinni minni, eitthvað sem ég hélt að myndi ganga best að standa við. Þetta gæti hugsanlega kallast síðbúin jólahreingerning eða sjúkdómurinn: lærdómsfóbía með takarosalegaveltil áráttueinkennum en allavegana þá má fara að heimsækja mig aftur eftir þetta rassíu en bannið hefur staðið yfir síðan í byrjun desember.

En það er helst í fréttum að gúbbífiskarnir sem voru mest þrír hér í byrjun desember eru núna orðnir 12 þar af 11 seiði þegar ég hélt að þeir væru allir að fara að drepast og væru bara sniglar eftir (auðveldara að hugsa um þá). Sko málið er að fiskurinn GB eignaðist 5 seiði í desember svo drapst hún fljótlega. Fiskurinn Valdi og fiskurinn Guðrún voru þá eftir. Svo drapst fiskurinn Valdi löngu fyrir jól og viti menn núna á nýja árinu bætti svo fiskurinn Guðrún við 6 seiðum í viðbót. Annað hvort ganga gúbbífiskar lengi með seiðin sín eða þá að heilagur fiskur (kannski fiskurinn Valdi) er líklegast faðirinn. Hvernig sem á þetta er litið er þetta hið undarlegasta mál allt saman...

Já og það er komin líkamsræktarstöð á Hvanneyri... jibbííí... Nú eru allir rosakátir og eru farnir að hreyfast á fullu og af krafti í þokkabót.

Já og svo er hið stórkostlega Þorrablót í Þingborg um næstu helgi og það verður væntanlega baaaara fjör, alvöru stemning. Þar verður kjamsað á hákarli og súrum pungum fram eftir nóttu við undirspili hljómsveitarinnar. Síðustu forvöð að panta miða á morgun...
Over and out
|

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Hafið í huga hvers kyns heilladísir eru...

Heilladísin sagði við gift par : Þar sem þið hafi verið hamingjusamlega gift í 35 ár ætla ég að veita ykkur hvoru eina ósk.
Eiginkonan sagði: Ég vil fara í heimsreisu ásamt mínum ástkæra eiginmanni. Heilladísin veifaði sprotanum sínum og AKABRADABRA það birtust tveir farseðlar með það sama.

Nú var komið að manninum og hann hugsaði sig um í smá tíma og sagði svo , tja þetta er nú rómantísk stund en svona tækifæri gefst bara einu sinni á æfinni,............. því miður mín kæra, mín ósk er að eiga konu sem er 30 árum yngri en ég. Konan varð að vonum skúffuð en ósk er ósk.
Heilladísin veifaði töfrasprotanum.......................og AKABRADABRA..........
maðurinn varð 90 ára með það sama.

Lesist með indverskum hreim

Það var einu sinni maður sem fór til að kaupa sér skó. Hann gekk niður Laugaveginn og fann
þar skóbúð sem hann hafði aldrei séð áður. Þegar inn var komið tók á móti honum Indverji,
sem var klæddur í týpíska indverska múnderningu, kuflinn og allt.
Indverjinn segir: "Góður dagur"
"Góðan dag" svarar maðurinn, "ég er kominn til að kaupa kuldaskó"
"Nei, nei, þú kaupa sandalur " segir indverjinn.
"Nei, hva það er að koma vetur, ég hef ekkert vid sandala að gera, mig vantar kuldaskó"
endurtekur maðurinn.
"Þú vantar sandalur, sandalur gera þig graður" segir Indverjinn og hneigir sig.
"Gera sandalar mig graðan?" hváir madurinn.
"Já" segir Indverjinn og réttir honum sandala. Maðurinn hugsar með sér að hann geti nú alveg eins prófað
þetta og tekur við þeim. Eitthvað gekk honum nú illa að koma sér í skóna, enda aldrei áður farið í sandala,
en um leið og þeir voru komnir á fætur hans finnur hann þessa líka svakalegur greddu koma yfir sig og hann
bara ræður ekki við þörfina. Hann rýkur á Indverjann, kippir kuflinum upp og ætlar bara að fá sér einn stuttan.
Þá argar Indverjinn upp yfir sig: "Nei, nei, nei, þú vera í krummafótur!"
|

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Um síðustu helgi skellti ég mér í ferð með Bjsv Brák. Gengum við sex frá Sauðhúsaskógi þangað sem við vorum keyrð og upp í Langavatnsdal þar sem við gistum í gangnamannakofa Borghreppinga. Á korti var leiðin ekki löng en þegar í læris og upp í mittisdjúpan snjó var komið var hún orðin heldur lengri en fólk átti von á. Ekki man ég eftir að hafa gengið (troðist áfram) í álíka snjó áður en þetta var mjög góð ferð og þá sérstaklega fyrir rass og lærisæfingar. Tunglsljósið var mjög fallegt inn á milli veðurhryðja og á endanum komumst við í kofann.
Á laugardeginum fórum við í gönguferð upp Réttarmúlann þaðan sem var mjög fallegt útsýni yfir Langavatnið. Þetta er mjög spennandi svæði og hefði verið frábært að fara um það á skíðum. Svo bakaði náttúrulega Ásgeir þessar dýrindispönnukökur namminamm. Þær eru einskonar staðalbúnaður í ferðir...
Á sunnudeginum kom svo vélsleðahópur á móti okkur og buðu að aðstoða síðasta spottann að bílunum sem sumir nýttu sér. Með í för var púlka sem er einskonar sleði sem maður bindur aftan í sig. Hún var víst í jómfrúarferðinni og eigandinn var ánægður með rispurnar sem komu eftir ferðina:) Frábært tækifæri að fá að testa svona apparat fyrir komandi gönguskíðaferðir en Kerstin sem er þýsk var með hana mestalla leiðina í þessarri ferð ásamt þungum þrífóti og risamyndavél í bakpokanum. Já þessar þýsku valkyrjur kalla nú ekki allt ömmu sína...

Var að uppgötva mér til mikillar undrunar að ég get ekki notað Dagbók 2005 þar sem hún tekur ekki fyrir árið 2006 á eftir 2005... Þetta finnst mér mjög eiginlega mjög leiðinlegt þar sem mér þykir ennþá vænt um þessa dagbók...

Hmmm fleiri forsetar Bandaríkjanna hafa verið óheppnir í orðavali en Bush... "Það er sannarlega við hæfi að við komum hér saman í dag til þess að minnast Abrahams Lincolns, sem fæddist í bjálkakofa er hann reisti með eigin höndum." Ronald Reagan
|

sunnudagur, janúar 15, 2006

Áramótaheitið 2006...

...er að sinna vinum og fjölskyldu meira en árið 2005. Og reyndar líka eitthvað eins og að borða meira grænan mat og hætta mánaðarskorpuæfingum (æfa ógeðslega mikið í viku og hætta í þrjár). Svo gerði ég líka smá raunhæf áramótaheit t.d. er ég hætt að reykja, hætt taka kókaín, hætt að vera með anórexíu og ætla alltaf að hafa drasl (óreglulega uppsetta hluti á óreglulegum stöðum) í íbúðinni minni, líka þegar koma gestir.

Já, svo voru það fyrstu jólin eftir að pabbi dó sem svo margir spyrja um og aðrir kannski þora ekki að spyrja um. Þau voru í rauninni ekki eins erfið og ég bjóst við. Það var aðallega tíminn fyrir jól sem var erfiðastur, því einhvern veginn var ég alltaf að hugsa um hve jólin hlytu að verða erfið og öðruvísi. Auðvitað voru þau allt öðruvísi en ekki eins erfið og ég hélt þau yrðu. Við mamma vorum hjá Jónínu systur og hennar fjölskyldu á aðfangadag. Það var náttúrulega ekki leiðinlegt frekar en við var að búast með þeirri frábæru fjölskyldu, fullt af dásamlega góðum mat, æðislegum pökkum og miklu fjöri. Strákarnir fengu t.d. byssur í jólagjöf sem náttúrulega undirstrikaði friðaranda jólanna:) Pabbi var nú alveg örugglega ekki langt í burtu.

Annan í jólum fór ég út til Noregs til Önnu Guðrúnar og Elínar systra minna og fjölskyldna þeirra. Þær búa í Telemarkfylki og náttúrulega fór ég með nýju (gömlu) Telemark skíðin með mér, hvar er betra að læra á Telemark en í Telemark? Ég bara spyr... Daginn eftir kom svo Lilja Akur- og Hvanneyringur frá Danmörku og svo vorum við í svakalega góðu yfirlæti hjá systrum mínum töluvert fram yfir áramót.

Við vorum að mestu leyti hjá Elínu sem var kaaaaasólétt en er búin að eiga stóran strák núna, Tor Magne og Einari litla frænda og núna stóra bróður....já og Nemi klappsjúka hundinum þeirra og kettinum sem er með 23tær og er lagður í einelti af hundinum sem er border collie og er auðvitað stöðugt að smala honum. Þau búa í fallegu húsi á ótrúlega fallegum stað alveg við risastórt vatn sem liggur alveg út í sjó með einhverjum af elstu skipastigum í heimi.. sem voru byggðir frá 19.öld.

Svo gistum við líka tvær nætur hjá Önnu Guðrúnu og hennar fjölskyldu því Lena og Mari frænkuungarnir mínir tóku það ekki í mál að tante Halla og Lilja væru bara hjá tante Elin. Þau eiga líka svona skrítinn kött með margar tær en þetta eru kallaðir skipakettir, þau eiga líka spes finnskan veiðihund, hann Jeppe sem er soldið kreisí og þarf að sofa útí gerðinu sínu. Þau búa meira í svona hverfi. Við hliðina á þeim er sveitabúðin sem gamall kall á. Þar fæst bókstaflega allt nema kannski úrval af matvörum en á 10fermetrum er t.d. bjór, allskyns föt, útivistardót, snyrtivörur og allt sem nöfnum getur að nefna. En ekki kannski sett upp á mjög skipulegan hátt. Mér fannst t.d. mjög fyndið að í einni hillunni var einn borðtennisspaði, einn útivistarketill og einn smokkapakki saman.

Staðurinn er alveg magnaður með há fjöll um allt, hrikalega flotta kletta, risastórt vatn, alls kyns dýr og skemmtilegt fólk sem maður getur rekist á.
Við fórum á skíði uppá næstum hvern dag, á Telemarkskíði í stóru brekkurnar í Vraadal þrjá daga en svo oft á gönguskíði upp í heiði með annað hvort Tor Magne eða Önnu Guðrúnu og co. Á heiðinni eru nokkrar leiðir þar sem er farið yfir með tæki öðru hvoru og það var frábært færi, við fengum að sjá gönguskíðakeppni þar á gamlársdag. Þegar við vorum komnar heim eftir að hafa horft á keppnina buðu Tor Magne og Trond mágur hans okkur í gönguskíðaferð uppá Næring sem er hæsta fjallið í kring til að skjóta upp rakgettum. Eftir að skíða þar upp og bera skíðin brattasta hlutann komum við að mastri þangað sem komu saman um 15-20 manns. Einn klifraði upp hálft mastrið og setti þar upp gult vinnuljós sem lýsti yfir nóttina, kveiktur var lítill varðeldur og skotið upp. Ekki var nú alveg farið eftir ströngustu öryggisreglum í flugeldauppskoti þar sem allir stóðu rétt hjá flugeldunum , gleraugnalausir og ýmislegt fleira ógáfulegt sem ekki sést mikið hér heima. Ekki skrítið að 28 norsarar hafi skaðast á auga og 8 misst sjónina á gamlárs. En þetta var ekkert smá gaman og ekki síður að skíða niður í myrkri.

Um kvöldið vorum við keyrðar í Vraadal þar sem við fórum með Þórálfi (Toralf) fyrrum vinnufélaga mínum á pöbbinn þar sem var trúbador og stuð þó ekki væri pubbinn fullur af fólki en fólkið var amk fullt. Eitt sumar og tvenn jól var ég sem sagt að vinna þarna í Vraadal og gaman að sjá slatta af fólkinu og staðnum aftur.

Allveg fullt sem ég gæti sagt fleira frá Norge en hér verður samt stoppað. Var ekkert smá gaman og avslappende að vera þarna, verður pottþétt endurtekið einhvern tímann...
|

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Alveg finnst mér það merkilegt...

...að einhverjir skuli ennþá kíkja inná síðuna þrátt fyrir að það gerist ekki alltof mikið hérna inni. Ég var að velta því fyrir mér hvað það væri eiginlega sem fólk væri að bíða eftir að lesa inni á svona síðum þar sem gerist eiginlega ekkert. Er það kannski spennan um hvort það muni einhvern tíma eitthvað gerast alveg eins og Suðurlandsskjálfti? (Við erum nú reyndar líka upprunnin af sömu slóðum.) Eru vinir mínir einstaklega þolinmóðir? (Held reyndar að þeir þurfi að vera soldið mikið þolinmóðir...) Kemur fólk inná svona tregar síður til að athuga hvort einhverjar tilfinningalegar uppljóstranir verði til? Brandarar fæðist? Lífsreynslusögur sagðar óháð skemmtanagildi? Heimskuparasögur? Nú veit ég uppá mig sökina fyrir því að líta ekki oft inná annarra manna blogg og heldur ekki mitt eigið... Hvað skyldi það vera sem fær fólk til þess að heimsækja síðu þar sem ekkert hefur gerst í mánuði??? Ef þú lest þetta þá endilega gerðu athugasemd...c",)
|

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Einfalt er betra en flókið.
Hljóðlátt er betra en hávaðasamt.
Það sem er nærtækt er betra en það sem þarf að leita að.
Dieter Rams
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?