Sannleikur hversdagsins

sunnudagur, október 24, 2004

Hasarsagan: Hvítu augabrýrnar og ferðin á Þumal

Það var farið á nálgast helgina sem leit út fyrir að vera fyrsta heila helgi Hvítu augabrúnanna í sælureitnum Hvanneyri, friðsæl helgi með blesgæsakvaki og músagrasskrjáfi. En þá... HVISSBANG hringir síminn. Í símanum er Dísa Ljósálfur sem fer að ræða fyrirhugaða undanfara og -rennuferð á Þumal. Hjartað byrjar strax að slá örar í Hvítu augabrúnum, adrenalínkliður fer um æðarnar, Þumall, drangur hvers klifrara. I´m in!

Lagt var af stað á föstudagskveldi með nesti og gamla, góða gönguskó. Tilkynnt var að við þyrftum ekki jöklabúnað og svoleiðis svo bakpokinn var ekki svo svaðalega troðinn. Skoska stálið fékk þó að fara með just in case, það klikkar náttúrulega ekki, enda handgert og vandað yeah baby yeah!
Komið var í Skaftafell um eittleytið og öllu nauðsynlegu, í reisu sem þessa, raðað af kostgæfni í bakpokana. Kalt var í veðri og stjörnubjart. Við gengum um nóttina yfir í Mosárdalinn. Ískristallarnir störðu með sínum glitrandi augum á okkur þar sem höfuðljósin lýstu upp trén og stíginn sem var svelllagður að mestu. Tjaldað var í Mosárdal nema þeir sem nenntu því ekki. Við Villý t.d.gerðum tjaldið að double bivac og sváfum undir berum himni, mörgum stjörnum og einu tungli. Eina sem vantaði var varðeldur og úlfaspangól.. Hroturnar í strákunum bættu það samt upp.

Nóttin varð aðeins stutt hjá ferðalöngunum, því tveim tímum seinna (kl.7) heyrðist ógurlegt öskur. Allir hrukku við... Freyr foringi senior var farinn að vekja liðið.
Veðrið var gott og hin ægifögru fjöll suðausturlands teygðu úr sér eftir magnaða nótt þegar undanfararnir og rennurnar átta lögðu af stað í ferð sem enginn vissi hvernig færi.
Eftir því sem ofar dró og skriðurnar urðu brattari og lausari magnaðist spennan og gleðin. Þumall gægðist betur og betur yfir hópinn þegar hópurinn hækkaði sig í skriðu dauðans í Hnotudal. Sumir ferðalanganna höfðu reynt áður þessa för en ekki fundið rétta klettinn, aðeins aðra minni sem litu út fyrir að vera fugladrit á grein í samanburði við Þumal sem stækkaði ört.

Eftir skriðu dauðans blasti garpurinn við en þar kom jafnframt kafli sem Hvítu augabrúnum fannst vera efri mörk takmarka sinna, skriðuklöpp sem var laus í sér en samt ekki. Flest það sem tekið var í fór niður brattar klapparskriður og það var ekki gott að vera í venjulegum gönguskóm. Ef einhver hefði skoppað niður þarna væri sá hinn sami sjálfsagt enn á leið niður.
Ekki tók betra við eftir skriðuklapparþverunina því aðstæður á þumli eru nefnilega ekki þær sömu í október og í júlí þegar hann er yfirleitt klifinn. Jökullinn sem þarf að fara yfir var krosssprunginn og við ekki í broddum! Skoska stálið var hið eina ískins sem var með í för. Það var harður snjór á ísnum svo hægt var að gera spor en gapandi, hljóðar jöklasprungur voru um allt. Þegar kom að því að fara að hoppa yfir sprungu og lenda á fremur lítilli spöng útbúnaðarlaus ákvað helmingur hópsins að sýna skynsemi og snúa við, hinn helmingurinn hélt yfir sprungusvæðið og hóf klifrið.

Helmingur af helmingnum sem fór tilbaka ákvað að athuga hvort hægt væri að komast hinum megin að klifurstaðnum, sem sagt Hvítu augabrúnirnar og Pétur Steinn. Villý og Herdís urðu eftir. Það var hægt að komast í kringum Þumal en upp þurfti að fara skriðu sem varð að klifra með á klettaveggnum því hún var öll laus og ekki hefði þurft mikið til að setja af stað skriðu. Þegar við komum upp sáum við á óæðri endann á Frey junior sem var að fara upp fyrstu spönn. Við tók bið eftir The boys, Tryggva jr., Frey sen. og Frey jr. og Sissa. Biðin varð löng, löng og löng en við töpuðum samt ekki gleðinni, héldum henni í nokkra klukkutíma við hugmyndaflug sitt á hvað og myndatökur. Fengum heimsókn rjúpna þarna upp í yfir 1000m hæð. Pétur fór reyndar að sjá sofubroskalla á tímabili áður en hann sofnaði en það var örugglega bara af ofkælingu... Þegar The boys komu niður að þá var farið að rökkva og samt helmingur leiðarinnar eftir, leiðin tilbaka. Stelpurnar höfðu farið á undan.
Sumir í hópnum tóku það ekki í mál að fara ótryggð yfir skriðuþverunina þannig að skellt var upp handriði með línu sem var ágætt því eitt takið sem Hvítu augabrúnirnar tóku í datt ásamt um rúmmetra af bergi. Namminamm adrenalín:)

En restin af leiðinni gekk vel eftir gpstrackinu hans Péturs Steins, það er ekki of gott að rata þarna í myrkri. Því komust einmitt sumir að... Því þegar hópurinn var að koma niður síðustu brekkuna heyrðist allt í einu kallað langt ofan úr fjalli: "Halló" og "Villtar". Þar voru þá Herdís og Villý sem villst höfðu af leið og voru einmitt þarna að fara að finna sér skjólstað fyrir nóttina. Með góðu ljósi var lýst upp til þeirra og þá voru þær fyrir ofan bratt klettabelti. En sem betur fór var þarna björgunarsveit á ferð sem hjálpaði þeim að síga niður á góðum stað, allt fór vel, gott var að fara að sofa í tjöldunum í hellirigningu og í hellirigningu var gengið í Skaftafell daginn eftir og gleðin sem aldrei fyrr.
Myndir úr ferðinni.
|

föstudagur, október 22, 2004

Það sem allir hafa beðið eftir með óþreyju...

...myndir af Hummer og Kjarval c",)
|

mánudagur, október 18, 2004

Jamm...

...það er sem sagt smá bið á útgáfu smásaganna sökum þess að Hvítu augabrúnirnar eru að fara í lokapróf í stærðfræði á miðvikudag. En þess má geta að Hvítu augabrúnirnar eru byrjaðar í hljómsveit sem heitir Geit, þar sem þær spila á didgeridoo og gera sönginn ehhh.. "líflegri" þess á milli. Allt að gerast á Hvanneyri... ...en heldur minna á blogginu á alheimsnetinu. En ef allt kæmi strax myndi enginn nenna að kíkja á bloggið mohohohohohoho Allt á kafi í snjó ÍHAAAA!!!!


P.s. Veit einhver um einmana gönguskíði/telemark sem eru ekki í notkun????????
|

laugardagur, október 16, 2004

Á næstunni...

-Mun koma út hasarsagan: Hvítu augabrýrnar og ferðin á Þumal
-Spennutryllirinn: Hver át barnabörnin? Eða voru þau aldrei til?
-Sveitarómantíkin: Smalað í ilmandi birkirunnum Kalmanstunguafréttar.
-Heimildasagan: Brotin mannréttindi á Hvanneyri! Hvar er réttlætið?

Svo hefur verið opnuð myndasíða í nafni tveggja hvítra augabrúna og má þar búast við að myndauðgi við sögur síðu þessarrar muni spretta upp eins og gorkúlur. En meira um það seinna... Góða helgi!

Over and out...
|

föstudagur, október 08, 2004

Góðu fréttirnar eru þær...

...að það er farið að vera hvítt í fjöllum hérna í Borgarfirðinum. Skessuhornið sem blasir við á hverjum morgni er búið að vera sveipað hvítri slæðu undanfarna daga. Skyldu nú veðurguðirnir hafa ákveðið að skella smá vetri á árið 2004? Það væri ekki amalegt svona einu sinni.

Slæmu fréttirnar eru þær...
...að það er alltof mikið að gera á Hvanneyri, alltof mikið áhugavert að velja úr... Það er hægt að stunda körfubolta, bandy, fótbolta, blak, handbolta, sund, nokkrar teg.jóga, dans, hestamennsku, bridge, leiklist, partí, söng etc. svo eru áhugaverðir fyrirlestrar öllum stundum, óendanlegir útivistarmöguleikar. Svo er það skólinn... ...það vantar að minnsta kosti 3 aukadaga í vikuna eða ódýra klónunarmöguleika í þennan heim.

Í gær var karaokí á Mótel Venus sem er aðal partípleisið í sveitinni. Nottlega stóðst maður ekki mátið að sjá hljóðnema og dúettinn okkar Önnu Sifjar sem er með mér á umsk1 tók tvö lög og viti menn við enduðum í 3ja sæti. Segir kannski til um það hve fáir tóku þátt...:) Sá annars fram á rólega helgi með lestri góðra námsbóka og chilli en nú hefur stefnan snarlega tekin á að reyna við Þumal með undanförum og -rennum... Ef ég skrifa aldrei hér inn aftur að þá var gaman að kynnast ykkur:o) May the force be with you!
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?