Sannleikur hversdagsins

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Dánarfregnir og jarðarfarir...

Ástkær fóstursonur&dóttir mín og fósturbróðir&systir, Kjarval eplasnigill, lést á heimili sínu síðastliðinn fimmtudag. Jarðarförin fór fram í kyrrþey með nánustu aðstandendum við hljóðan söng viftunnar á baðherberginu. Blóm og kransar afþakkaðir en þeir sem vilja minnast hans eru vinsamlegast beðnir um að ættleiða höfrung einhverstaðar í Ameríku...
|

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Jæja, núna eru komnar aðeins fleiri myndir inná Myndasíðuna mína. Má þar t.d. nefna hellamyndir, klifurmyndir og smalamyndir.
|

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Sveitarómantíkin: Smalað í ilmandi birkirunnum Kalmanstunguafréttar

Það var yndislegt að smala Tunguna sem ég býst við að Kalmanstunga heiti eftir. Þoka lá í lofti og kindurnar lágu alls staðar í felum í þéttum birkiskógunum. Þetta var allt öðruvísi en að smala í kringum Strútinn þar sem maður gat verið á hestinum nær allan tímann. Tungan er hinsvegar klædd illreiðfærum birkiskógi sem var afar spennandi að smala. Í sex klukkustundir þurfti maður að hlaupa gólandi hin ýmsustu furðuhljóð sem ósjálfrátt berast úr barkanum þegar fólk kemst í smölun. Með greinar í augum, flæktar um fætur, hárið flækt alls staðar (húfan týndist) þá þurfti svo að reyna að koma auga á kindur í frumskóginum, góð vísbending var hvítt sem hreyfðist. Þeir sem voru uppi í fjalli sögðu þeim sem voru á flatlendi til með talstöðvum ef þeir sáu kindur og svo öfugt. Að smala í birkiskógum er ekki eins einfalt og ætla mætti, ekki er auðvelt að sjá kindurnar og þær vita það vel og fela sig eftir því samt náðum við um 300 kindum sem voru um 50 á mann.
Eftir hrikalega góða kjötsúpu Ástu bóndakonu keyrði ég heim húfulaus, þreytt og afar hamingjusöm í hjarta mér. Ég tek ofan fyrir birkiskógabændum!!!
|
Spennutryllirinn: Hver át barnabörnin? Eða voru þau aldrei til?

Það var seint um kvöld í lok september að hinn ofurfagri slóvenskættaði Hummer fór í labbitúr í litla heiminum sínum í hrærivélarskálinni. Honum leið afar undarlega og hikaði í hverju spori á sínum sex löppum. Eggin sem hann hafði borið undanfarnar vikur voru farin að losna og Hummer hinn fagri hafði miklar áhyggjur af þessu. Það var líkt og örlögin hefðu tekið í taumana og ákveðið að kast afkvæmum hans, og aðeins hans, út í sandinn. Skjálfti fór um vinstri klónna og skelina hans þegar síðustu eggin losnuðu af fótum hans, nú stóð honum ekki á sama. Hann byrjaði að hlaupa stjórnlaust um búrið, bæði aftur á bak og áfram þar til hann var orðinn alveg úrvinda. Þá skreið hann undir stein og svaf draumlausum svefni þar til sólin kom upp. Hann opnaði augun sem voru reyndar alltaf opin og varð smá rangeygður af þreytu. Hann byrjaði strax að hrópa og kalla á eggin, börnin hans sem dreifst höfðu um búrið kvöldið áður en hróp hans hurfu, bergmálslaust út í þögnina. Þau voru horfin að eilífu... ef þau voru þá einhvern tíma til...
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?