Sannleikur hversdagsins

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Sveitarómantíkin: Smalað í ilmandi birkirunnum Kalmanstunguafréttar

Það var yndislegt að smala Tunguna sem ég býst við að Kalmanstunga heiti eftir. Þoka lá í lofti og kindurnar lágu alls staðar í felum í þéttum birkiskógunum. Þetta var allt öðruvísi en að smala í kringum Strútinn þar sem maður gat verið á hestinum nær allan tímann. Tungan er hinsvegar klædd illreiðfærum birkiskógi sem var afar spennandi að smala. Í sex klukkustundir þurfti maður að hlaupa gólandi hin ýmsustu furðuhljóð sem ósjálfrátt berast úr barkanum þegar fólk kemst í smölun. Með greinar í augum, flæktar um fætur, hárið flækt alls staðar (húfan týndist) þá þurfti svo að reyna að koma auga á kindur í frumskóginum, góð vísbending var hvítt sem hreyfðist. Þeir sem voru uppi í fjalli sögðu þeim sem voru á flatlendi til með talstöðvum ef þeir sáu kindur og svo öfugt. Að smala í birkiskógum er ekki eins einfalt og ætla mætti, ekki er auðvelt að sjá kindurnar og þær vita það vel og fela sig eftir því samt náðum við um 300 kindum sem voru um 50 á mann.
Eftir hrikalega góða kjötsúpu Ástu bóndakonu keyrði ég heim húfulaus, þreytt og afar hamingjusöm í hjarta mér. Ég tek ofan fyrir birkiskógabændum!!!
|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?