Sannleikur hversdagsins

mánudagur, júlí 04, 2005

Endalaus vinna, plöntuveröldin og brotið rifbein...

Já, það er nefnilega helst að frétta héðan úr Hal Animal heimi. Ég er búin að vera að vinna nonstop í sumar. Aðallega hjá Afþreyingarfélaginu við að driverguida útlendinga í Patrolum og Econlinerum sem er reyndar mjög gaman. Náði öllum prófum með árangri sem ég bjóst alls ekki við miðað við hvað ég var EKKI dugleg að læra. Hlýt að hafa sofið hjá einhverjum kennara án þess að hafa tekið eftir því ... djók. Þeir voru reyndar flestir kvenkyns... Bætti við mig tungumálum í leiðsögn og er núna EINI portúgölskumælandi leiðsögumaðurinn á Íslandi...JÍBBÍ! En það verður líklega breyting á næsta sumar þannig að ég ætla að njóta þess til hins ýtrasta að vera eitthvað öðruvísi svona einu sinni(hmm?:))...mohohohoho

Fór í fyrstu hringferðina sem driverguide með 8 spánverja þar af einn á við 4 sem var eins og 5 ára krakki. Áskorun sem hægt er að fá í svona ferðum. Á endanum fór ég að beita jákvæðnisaðferðinni á hann. Veitti honum athygli og jákvæðni þegar hann sagði eða gerði eitthvað jákvætt (í mínum augum) og ignoraði hann þegar hann var að tauta einhver leiðindi. Þetta svínvirkaði á kauða og allt gekk eins og í sögu...:) Þau voru búin að ferðast um allan heim og héldu að þau hefðu séð allt en þau héldu að kindurnar væru geitur, tvíreykt kindakjöt væri svínakjöt, hópur af svönum uppi í fjalli væru mjallahvítar kindur og klunnalegur svanur á rölti meðfram veginum væri sko ekki svanur því þeir væru svo glæsilegir og ALLTAF á vatni. Sem betur fór hittum við fyrir 2 stórglæsilega geithafra með megahorn sem afsannaði geitakenninguna, kjötið fór að jarma, kíkirinn afsannaði hvítukindakenninguna og fuglabókin sýndi ísl.svani og nafnið á spænsku. En þau voru ekkert smá skemmtileg að öðru leyti og við sáum hnúfubaki, flórgoðahreiður og lóuhreiður, húsönd og straumönd, hreindýr og seli o.fl. Alveg frábær ferð!

Í júní vikulangt plöntugreiningarnámsskeið á Hvanneyri sem var ekkert smá mikið fjör og ég lærði ótrúlega margar plöntutegundir og nú getur maður ekki hætt að glápa eins og hálfviti út um allt í leit að plöntum, ekki það að hálfvitar eru líka ágætir. Svo eigum við að gera plöntusafn með slatti mörgum plöntum. Í ágúst fer ég svo á eitthvað landgræðslunámsskeið í Gunnarsholti.

Og ef einhver ekki vissi að þá er hægt að brjóta rifbein með hósta og það er vont:) Ég er farin að verða svolítið þreytt á því að hósta en það hefur verið mjög vinsælt sport hjá lungunum í mér síðan fyrir páska. Ég má ekki hreyfa mig spönn frá rassi og þá hósta ég eins og hross í klukkutíma eða svo. Svo hefur það komið tvisvar fyrir að ég hef brotið eða brákað rifbein út af honum. Hversu heimskulegt er það eiginlega?

Speki mánaðarins: Maður á frekar að vera 5 mínútum of seinn í þessu lífi heldur en 50 árum of snemma í því næsta! (Maggi skipstjóri)

Over and out, takk fyrir þolinmæðina, eigið góðar stundir...
|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?