Sannleikur hversdagsins

þriðjudagur, mars 14, 2006

Ísklifur í túnfætinum

Undanfarnar vikur eru búnar að vera fullar af lærdómi en líka smá skemmtun inná milli. Um síðustu helgi fórum við Lilja, Ásgeir og Árni eldsnemma morguns að kíkja á ísfossa hér rétt hjá, nánar tiltekið við bæinn Skeljabrekku. Viti menn, ísinn var alveg brilliant og tilvalinn til æfinga. Við klöngruðumst upp gil og settum upp tryggingu fyrir ofan fossinn þar sem við svo æfðum okkur í ísklifri. Fossinn reyndist vera 25 metra hár og var hann ágætisáskorun miðað við fremur slakt ísklifurform... Lilja og Árni voru að ísklifra í fyrsta skipti og stóðu sig mjög vel:) Alveg frábær "fyrir hádegi á prófatíma"-ferð... Ásgeir og vinir hans höfðu verið að massa og bóna bíla fram eftir kvöldi og hann var því fyrir ofan við tryggingarstörf. Svo tók hann bílinn minn og fór með hann í mössun og bón án þess að ég fengi nokkuð um ráðið og ég fæ að borga í bjór og dietkóki. Vá hvað bíllinn minn er orðinn flottur núna, hann er meira að segja rauðsanseraður:) Ég er búin að gera við hjólið mitt og nota það mikið svo ég óhreinki ekki fína, hreina bílinn minn...

Wannabe telemarkari

Í dag fórum við Lilja, Anna Lóa og Siggi Frigg á skíði í Bláfjöll. Komum þegar verið var að loka stólalyftunni og þurftum því ekki að borga en gátum samt farið á skíði:) Ótrúlega sniðugir námsmenn... Ég var náttúrulega á telemarkskíðunum mínum en er ekki alveg farin að geta telemarkað í "bröttum brekkum" ennþá og er orðin PÍNU PIRRUÐ. Ég hef það þó til afsökunar að ég ólst uppá mesta flatlendi á Íslandi og áður en ég fékk löngu, velrenni telemarkskíðin mín kunni ég bara að plóga smá og ég er ekki búin að æfa mig nóg! Sem betur fer er skíðaferð um næstu helgi með útivistarklúbbnum á Hvanneyri. Farið verður norður og skíðað fram af sér beizlinu og jafnvel hnakknum líka... Ég skal geta telemarkað hvað sem það kostar....

Ef einhvern langar til þess að sjá skólablaðið á LBHÍ þá er það á netformi hérna
Hér eru tvær myndir frá Lilju af ísklifrinu:|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?