Sannleikur hversdagsins

mánudagur, september 25, 2006

Göngum með Ómari - þjóðarsátt fyrir komandi kynslóðir

Boðað er til fjöldagöngu með Ómari Ragnarssyni frá Hlemmi að Austurvelli klukkan 20.00 á þriðjudag. Ómar hefur kynnt hugmyndir um nýjar leiðir sem fela í sér að hægt verði að afla raforku til að knýja álverið í Reyðarfirði án þess að fórna þeim náttúruperlum sem færu undir fyrirhugað Hálslón. Ómar leggur til að fyllingu Hálslóns verði frestað og Kárahnjúkavirkjun verði geymd ógangsett sem magnað minnismerki um hugrekki þjóðar sem leitaði sátta við kynslóðir framtíðarinnar og eigin samvisku.

Ómar kynnti þessar hugmyndir sínar á blaðamannafundi á dögunum. Við tökum áskorun hans og sýnum stuðning okkar í verki með því að safnast saman og ganga niður Laugaveginn. Við hvetjum þig til að gera slíkt hið sama.

Því er boðað til:

Jökulsárgöngu niður Laugaveginn á þriðjudag kl 20.00 frá Hlemmi að Austurvelli

Horfumst í augu við siðferðislegar skyldur okkar gagnvart landi og náttúru! Göngum með Ómari niður Laugarveg á þriðjudaginn.

Stöndum saman, sendum áfram og tryggjum góða mætingu!

|

föstudagur, september 22, 2006

Hmm já kannski spurning um að útskýra myndirnar þegar fólk er búið að skoða þær og setja ímyndunaraflið á fullt. Væri gaman að heyra það sem fólki datt í hug. Kannski eitthvað á þá leið: "Var greyið hún ein í heiminum í sumar eða?" Það er ekki reyndin. Þetta var dásamlegt sumar. Ekki hugsa of mikið - bara vinna og svo hafa tíma til að gera eitthvað annað en vinna. Sem sagt gerólíkt sumrinu í fyrra.
Þá eru það myndaútskýringar:

1.mynd er af dropasteinum í helli sem heitir Leiðarendi og er á Bláfjallaleið. Alveg hreint magnaður hellir, einn sá flottasti sem ég hef komið í. Fór þangað með nokkrum vúfferum frá Nonna bró.

2.mynd er af einum af uppáhaldsfuglunum mínum, fýlnum. Tekin í hvalaskoðunarferð með Hafsúlunni á marathons og menningarnæturdeginum. Geggjuð ferð og fullt af fuglum og hvölum.

3.mynd er tekin á Miðaldafestivali í Danmörku í ágúst. Þar gat maður fengið að prófa að skjóta af boga. Fór tvisvar, í fyrra skiptið eftir nokkra öllara og ótrúlegt en satt þá var ég miklu betri þá... Spurning um að drekka meira... eða ekki.

4.mynd þarna er kind sem er á leið í hestakerru í Fljótstunguréttir, skilur ekki neitt í neinu.

5.mynd er af honum Jóni mínum sem ég var að vinna með í allt sumar í girðingunum í Gunnarsholti. Þarna er hann á girðingarbílnum okkar að skima eftir áburðarpokum sem fuku út um allan sand og við vorum að tína upp.

6.mynd er tekin við Gunnarsholt þegar tunglið kom upp yfir fjöllin skærappelsínugult, ótrúlega fallegt. Myndin er ekki fiffuð.

7.mynd er af hestum við holtið heima. Litla krúttmerin hún Kleópatra er þarna á bakvið.

8.mynd er af litlum bleikjum sem veiddust í Laufdalsvatni í sumar þegar fjölskyldan skellti sér í veiðiferð þangað. Svo var hluti aflans grillaður og étinn með bestu lyst. Veiddust yfir hundrað fiskar sem var rosagaman.

9.mynd er af kindum sem voru að væflast á svæðinu sem við vorum að girða á í Selvogi í sumar og báðu um smá myndatöku.
|

miðvikudagur, september 13, 2006

Byrjum á svipmyndum frá sumrinu sem er að líða...
Þess má geta að myndasíðan mín er í endurgerð og mun ekki opnast fyrr en eftir mánuð.|

sunnudagur, september 10, 2006

Þá er helgin langa loksins búin...

...en það er alltaf frekar erfitt að byrja að skrifa þegar maður hefur ekki verið að skrifa neitt lengi þannig að ég veit ekkert hvað ég á að skrifa núna og ætla bara að skrifa einhverja vitleysu í nokkrar línur þannig að það líti bara út fyrir að ég sé rosalega dugleg að blogga þótt ég sé í rauninni mesti letingi við að skrifa og núna hlýtur sá sem er búinn að lesa alla leið hingað að vera orðinn frekar þreyttur á því að lesa þetta rugl en heldur samt áfram að lesa af því ég held áfram að skrifa á meðan aðrir hafa örugglega hætt á miðri leið og enn heldur viðkomandi áfram að lesa af því hann veit ekkert hvernig þetta á eftir að enda og ég ekki heldur því í rauninni eru það bara puttarnir á mér sem halda áfram en ég er löngu hætt að hugsa um það hvað ég er að skrifa en allaveganna eigið góðar stundir í bili svo kemur meira seinna punktur
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?