Sannleikur hversdagsins

sunnudagur, janúar 15, 2006

Áramótaheitið 2006...

...er að sinna vinum og fjölskyldu meira en árið 2005. Og reyndar líka eitthvað eins og að borða meira grænan mat og hætta mánaðarskorpuæfingum (æfa ógeðslega mikið í viku og hætta í þrjár). Svo gerði ég líka smá raunhæf áramótaheit t.d. er ég hætt að reykja, hætt taka kókaín, hætt að vera með anórexíu og ætla alltaf að hafa drasl (óreglulega uppsetta hluti á óreglulegum stöðum) í íbúðinni minni, líka þegar koma gestir.

Já, svo voru það fyrstu jólin eftir að pabbi dó sem svo margir spyrja um og aðrir kannski þora ekki að spyrja um. Þau voru í rauninni ekki eins erfið og ég bjóst við. Það var aðallega tíminn fyrir jól sem var erfiðastur, því einhvern veginn var ég alltaf að hugsa um hve jólin hlytu að verða erfið og öðruvísi. Auðvitað voru þau allt öðruvísi en ekki eins erfið og ég hélt þau yrðu. Við mamma vorum hjá Jónínu systur og hennar fjölskyldu á aðfangadag. Það var náttúrulega ekki leiðinlegt frekar en við var að búast með þeirri frábæru fjölskyldu, fullt af dásamlega góðum mat, æðislegum pökkum og miklu fjöri. Strákarnir fengu t.d. byssur í jólagjöf sem náttúrulega undirstrikaði friðaranda jólanna:) Pabbi var nú alveg örugglega ekki langt í burtu.

Annan í jólum fór ég út til Noregs til Önnu Guðrúnar og Elínar systra minna og fjölskyldna þeirra. Þær búa í Telemarkfylki og náttúrulega fór ég með nýju (gömlu) Telemark skíðin með mér, hvar er betra að læra á Telemark en í Telemark? Ég bara spyr... Daginn eftir kom svo Lilja Akur- og Hvanneyringur frá Danmörku og svo vorum við í svakalega góðu yfirlæti hjá systrum mínum töluvert fram yfir áramót.

Við vorum að mestu leyti hjá Elínu sem var kaaaaasólétt en er búin að eiga stóran strák núna, Tor Magne og Einari litla frænda og núna stóra bróður....já og Nemi klappsjúka hundinum þeirra og kettinum sem er með 23tær og er lagður í einelti af hundinum sem er border collie og er auðvitað stöðugt að smala honum. Þau búa í fallegu húsi á ótrúlega fallegum stað alveg við risastórt vatn sem liggur alveg út í sjó með einhverjum af elstu skipastigum í heimi.. sem voru byggðir frá 19.öld.

Svo gistum við líka tvær nætur hjá Önnu Guðrúnu og hennar fjölskyldu því Lena og Mari frænkuungarnir mínir tóku það ekki í mál að tante Halla og Lilja væru bara hjá tante Elin. Þau eiga líka svona skrítinn kött með margar tær en þetta eru kallaðir skipakettir, þau eiga líka spes finnskan veiðihund, hann Jeppe sem er soldið kreisí og þarf að sofa útí gerðinu sínu. Þau búa meira í svona hverfi. Við hliðina á þeim er sveitabúðin sem gamall kall á. Þar fæst bókstaflega allt nema kannski úrval af matvörum en á 10fermetrum er t.d. bjór, allskyns föt, útivistardót, snyrtivörur og allt sem nöfnum getur að nefna. En ekki kannski sett upp á mjög skipulegan hátt. Mér fannst t.d. mjög fyndið að í einni hillunni var einn borðtennisspaði, einn útivistarketill og einn smokkapakki saman.

Staðurinn er alveg magnaður með há fjöll um allt, hrikalega flotta kletta, risastórt vatn, alls kyns dýr og skemmtilegt fólk sem maður getur rekist á.
Við fórum á skíði uppá næstum hvern dag, á Telemarkskíði í stóru brekkurnar í Vraadal þrjá daga en svo oft á gönguskíði upp í heiði með annað hvort Tor Magne eða Önnu Guðrúnu og co. Á heiðinni eru nokkrar leiðir þar sem er farið yfir með tæki öðru hvoru og það var frábært færi, við fengum að sjá gönguskíðakeppni þar á gamlársdag. Þegar við vorum komnar heim eftir að hafa horft á keppnina buðu Tor Magne og Trond mágur hans okkur í gönguskíðaferð uppá Næring sem er hæsta fjallið í kring til að skjóta upp rakgettum. Eftir að skíða þar upp og bera skíðin brattasta hlutann komum við að mastri þangað sem komu saman um 15-20 manns. Einn klifraði upp hálft mastrið og setti þar upp gult vinnuljós sem lýsti yfir nóttina, kveiktur var lítill varðeldur og skotið upp. Ekki var nú alveg farið eftir ströngustu öryggisreglum í flugeldauppskoti þar sem allir stóðu rétt hjá flugeldunum , gleraugnalausir og ýmislegt fleira ógáfulegt sem ekki sést mikið hér heima. Ekki skrítið að 28 norsarar hafi skaðast á auga og 8 misst sjónina á gamlárs. En þetta var ekkert smá gaman og ekki síður að skíða niður í myrkri.

Um kvöldið vorum við keyrðar í Vraadal þar sem við fórum með Þórálfi (Toralf) fyrrum vinnufélaga mínum á pöbbinn þar sem var trúbador og stuð þó ekki væri pubbinn fullur af fólki en fólkið var amk fullt. Eitt sumar og tvenn jól var ég sem sagt að vinna þarna í Vraadal og gaman að sjá slatta af fólkinu og staðnum aftur.

Allveg fullt sem ég gæti sagt fleira frá Norge en hér verður samt stoppað. Var ekkert smá gaman og avslappende að vera þarna, verður pottþétt endurtekið einhvern tímann...
|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?