Sannleikur hversdagsins

mánudagur, mars 20, 2006

Norðurland rokkar feitt

Slökkviliðspartí aldarinnar
Þá er komið að ferðasögu sveitavargsins á Norðurland oh yeah baby!!! Norður fékk ég far með Lilju og Vagga á fimmtudaginn sem auðvitað var gaman enda sómafólk:) Svo þegar við vorum að nálgast Akureyri hringdi ég í Kristínu Kötlu sem tilkynnti mér það að við yrðum að flýta okkur því leið okkar lægi í slökkviliðsmannapartý. Þetta var náttúrulega sjokk fyrir kvenkyns Hvanneyringsvarg sem sér aðallega kvenkyns verur dags daglega. Þarna fórum við sem sagt fjórar í partí í fullt hús af karlmönnum. Það var auðvitað bara eitt að gera í stöðunni og það var að byrja aftur að drekka enda 40 daga áfengisbannið löngu runnið á enda:) Svo var dælt í okkur áfenginu með stórri slöngu sem dældi vel 4 lítra á klukkutímann (örlitlar ýkjur). En við komum ekki heim fyrren hálffjögur um nóttina eftir frekar ódýrt og skemmtilegt skrall...

Þynnka í lausum hæl með stæl
Megnið af föstudeginum fór í þynnku og líka að ná í bílaleigubílinn hennar Kötlu sem reyndist vera lítill kassabíll sem þurfti að ýta upp brekkur en varð sjálfrennireið niður brekkur. Eftir einn sveittan borgara á Greifanum fórum við að rúnta um Akureyri. Um sjöleytið kom svo fríður flokkur manna og kvenna, aðallega kvenna af Hvanneyri og úr Borgarnesi... Og var ákveðið að skella sér upp í Hlíðarfjall til þess að fylgjast með atburði á Telemarkfestivalinu: stökkkeppninni miklu. Reyndar komum við svolítið seint en það var mjög gaman að fylgjast með öllum ótrúlega góðu telemörkurunum sem þeystu niður brekkurnar í lausum hæl með stæl...
Svo gáfum við skít í Akureyri sem átti enga gistingu fyrir okkur, þetta frábæra fólk...hnus og skelltum okkur í gósenvíkina Dalvík. Við gistum flest (5) báðar næturnar í skíðaskálanum á Dalvík en nokkrar (4) á Akureyri. Á föstudagskvöldinu kíktum við á aðalpleisið á Dalvík, Bakarann, sem kom bara nokkuð skemmtilega á óvart. Þarna fengum við forsmekk að tónlistarsmekk norðanmanna: Sylvía Nótt og Ruslana eru í hávegum hafðar... Sitt sýnist hverjum um það!

Hvanneyri og Borgarnes hertaka skíðasvæði Dalvíkinga

Á Dalvík áttum við ekki bara skíðaskálann fyrir okkur heldur líka lyftuna, fjallið og loftið og 7 metrar úr húsinu í lyftuna, þvílík hamingja. Reyndar þá var ekkert brjálæðislega mikill snjór en alveg nóg samt. Það var líka geggjað gott veður mestallan tímann og undur og stórmerki gerðust þegar ég náði Telemarka smá án þess að líta út eins og fótalaus rækja á svelli. Svo var gerður stökkpallur og jafnvel vargurinn skellti sér nokkrar ferðir sem reyndar enduðu svo flestar í misfallegum stellingum á rassinum eða andlitinu:) En þetta var ógeðslega gaman og hópurinn alveg frábær. Eftir að hafa haft hamskipti í sundlauginni í Þelamörk skelltum við okkur á tjúttið á Akureyri þar sem var nú heldur betri "fiskmarkaður" en á Kollubar :) Héldum aðallega til á Kaffi Amor þar sem við héldum áfram að hlusta á Ruslönu og Sylvíu Nótt... Frekar einhæfur tónlistarsmekkur þarna nyrðra... Þarna voru margir telemarkarar og einn þeirra vildi ólmur fá að sjá Team Hvanneyri á næsta ári... Hmm, sjáum nú til með það! Það væri nú gaman að sjá það, kannski hægt að hafa "fagurleika við fall"-keppni:) mohoho

Þriðja skíðasvæðið tekið í nefið
Já þegar fólk bregður sér Norður þá er nú ekki hægt að láta nægja bara Akureyri og Dalvík heldur á sunnudeginum skelltum við okkur líka í Tindastól, skíðasvæði Sauðkræklinga. En þar var frekar mikið harðfenni en samt mjöög frískandi. Svo var brunað heim á Vesturland með bros allan hringinn og langt upp á enni eftir frábæra helgi:)

Þá fer maður bara að láta sig hlakka til næstu helgi þar sem stefnan er tekin á skíði á Langjökli og í frænkupartí.
|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?