Sannleikur hversdagsins

sunnudagur, júlí 31, 2005

Sumt breytist aldrei...

Takk fyrir afmæliskveðjur knúsíknús...

Jæja nú er ég á 6. degi af 9 með 15 farþega í Across the wilderness trukkaferð og skemmti mér alveg konunglega. Þetta er mikil mixtúra af fólki, 1 svíi, 2 belgar, 2 hollendingar, 2 danir og 8 bretar þar af 2 unglingar og eitt barn. Reyndar soldið þreytandi að þurfa að tala dönsku fyrir eina konu sem ekki skilur ensku. Vá hvað þetta er samt æðislegt fólk og trukkurinn minn líka...hahaha. En ég hélt að ég myndi ekki verða eldri þegar ég fékk mantrukkinn minn nýja í hendurnar 270 hestöfl, 10 tonn og 16 gíra og dekk sem ná mér ofar en í mitti, mi god. En þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel og það er megafyndið að sjá hvernig sumir missa andlitið við að sjá STELPU af öllum fyrirbærum keyra svona ökutæki, sérstaklega égerbúinnaðvera55áríbransanumogvilekkisjáneinarkellingarnemaberar-trukkakalla. Ef fólk vissi bara hvað þetta er í raun auðvelt, en ég ætla nottlega ekki að segja neinum það frekar en að ég er á túr...

Jæja í gærkvöldi ætlaði ég að vera rosalega sniðug að koma dvd tækinu í gang og sýna Litlu ljótu lirfuna í dag. Eeeen í morgun virkaði svo ekki míkrófónninn og ég þurfti að ÞEGJA í 1 og 1/2 klst(pælaíþví). Kom honum samt í gang fyrir rest. Svo sá ég lóuunga hlaupandi á veginum og veiðieðlið gaus upp og mín stökk á eftir og náði honum eftir mikinn eltingarleik úti í móa enda stór ungi með hraðvirka risafætur en ég bara með hlúnkahlamma. Fólkið nottlega í kasti. En 2km keyrslu síðar fattaði ég að ég var ekki með símann á mér lengur heldur hafði misst hann á hlaupunum eftir litla gerpinu svo ég þurfti að snúa við og leita að bansettum símanum í risastórum móa sem gömul kona úr hópnum fann fyrir rest. Hún þurfti reyndar aðeins að vinna upp gærdaginn þar sem ég þurfti að hlaupa nokkra kílómetra eftir henni því hún hafði ákveðið að bíða eftir okkur í gönguferð sem var sko hringur svo við komum ekki tilbaka. En já sem sagt lóur geta verið skæðar þegar kemur að gemsum.
En jæja eftir snæfellsnes, skagafjörð, mývatn og sprengisand er ég núna á Hellu en á leið í Landmannalaugar, Hólaskjól, austur með ströndinni og heim til hinnar fjölskyldunnar minnar á Gerði í suðursveit þar sem við verðum í tvær nætur. Krúsað með ströndinni næstu daga. Ef einhver er á ferðinni endlich hafið samband.
Adios

Ps Suður svíar geta verið ógeðslega fyndnir, eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um.
|

sunnudagur, júlí 24, 2005

Ohhh, ég get verið svo guidafyndin stundum...

...af því ég bjó til nýjan guida brandara í dag... Ég er búin að vera með amerísk feðgin í 2 daga Gullna hringinn, á sleðum, og í helli þannig að við vorum aðeins farin að þekkjast og þá fara oft nýir brandarar að spretta. Var búin að segja þeim að bretar byggju í eins húsum en til að finna leiðina heim af barnum að þá væru þeir með hurðirnar málaðar í sitthvorum litnum. Við íslendingar gerðum gott betur og máluðum allt húsið í áberandi lit. Svo vorum við á leið til Keflavíkur í dag og ég sagði þeim að herstöðin væri þar sem mismunandi litu þökin væru, til þess að Airforcið vissi í hvaða blokk þeir ættu heima þegar þeir kæmu fljúgandi heim frá barnum... Var þetta ekki fyndið?:)

Og annar glataður guidabrandari en þegar maður er að keyra á holóttum malarvegi að þá finnst fólki voða sniðugt (amk mér og ég hlæ mjög hátt og skellt að sjálfri mér;)) þegar ég segi að þetta sé svona nuddvegur(massage road) og þau þurfi ekki að borga aukalega fyrir nuddið. Svo einu sinni var ég nýbúin að segja þetta og vegurinn varð hrikalega holóttur og fólkið átti fullt í fangi með að rotast ekki og þá kom einn guidabrandarinn: "But this aint no louzy massage road, this is a VIKING MASSAGE ROAD because they have so big muscles!" Og var þetta ekki líka fyndið?:)

En vissuði það að þegar allir fingur eru í lófann lagðir að þá eru þeir jafnlangir. Þegar allt fólk er lagt á koddann þá ná allir jafnlangt upp að höfðagaflinum... Stúlkur! Risi eða dvergur? Ætti samkvæmt því ekki að skipta máli...

Mér finnst að fleiri karlmenn ættu að hafa skegg því það er ótrúlega karlmannlegt, en samt ekki yfirvaraskegg með upprúllaða enda því það er ógeð..

Ok bæ!
|

föstudagur, júlí 22, 2005

P.s. mér fyndist rosalega kúl ef einhver myndi skrifa í gestabókina á afmælisdaginn minn, því þá verður skrifað einu sinni á ári!!!!:)
|

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Já, var að átta mig á því...

...að kannski hef ég ekki svo svakalega mikinn áhuga á því að vera eini portúgalski leiðsögumaðurinn á Íslandi því þeir eru ótrúlega krefjandi og orkufrekir þrátt fyrir að vera ótrúlega skemmtilegir og líflegir. Vantar eins og tvær könnur af þolinmæði með hverjum morgunmat og helst um kaffileytið líka. Þeir eru alltaf að spyrja að einhverju sem er gott mál en þegar þeir spyrja ALLIR í einu og ALLTAF að þá verður þetta soldið þreytandi.

...að það eru virkilega 10 ár síðan ég bjó í Portúgal og ég var ekki nema 17 þá og kannski ekki skrítið að ég viti ekki rassgat um þetta land. Ég kannast alveg við nöfn á mat og stöðum en ég man ekki alveg hvað það var eða hvort ég smakkaði og hvað þá ef mér fannst það gott eða hvar eða hvort og hvenær ég kom þangað. Og hvers vegna eru þá allir í hópnum alltaf að spyrja mig um eitthvað sem ég man ekki???

...að sumarið er að verða búið og ég er ekki búin að gera neitt nema vinna jú og auðvitað fara í brúðkaup. Vinnan er reyndar skemmtileg og brúðkaupin líka mjög skemmtileg en ég er ekki búin að gera mikið annað.

...að það er ótrúleg óeigingirni af fuglunum að vera að syngja fyrir okkur endalaust þar sem við nennum aldrei að syngja fyrir þá.

...að ég er að spá í því að ganga í klaustur tímabundið.

Megi hvalurinn mikli vera með ykkur!
|

mánudagur, júlí 04, 2005

Endalaus vinna, plöntuveröldin og brotið rifbein...

Já, það er nefnilega helst að frétta héðan úr Hal Animal heimi. Ég er búin að vera að vinna nonstop í sumar. Aðallega hjá Afþreyingarfélaginu við að driverguida útlendinga í Patrolum og Econlinerum sem er reyndar mjög gaman. Náði öllum prófum með árangri sem ég bjóst alls ekki við miðað við hvað ég var EKKI dugleg að læra. Hlýt að hafa sofið hjá einhverjum kennara án þess að hafa tekið eftir því ... djók. Þeir voru reyndar flestir kvenkyns... Bætti við mig tungumálum í leiðsögn og er núna EINI portúgölskumælandi leiðsögumaðurinn á Íslandi...JÍBBÍ! En það verður líklega breyting á næsta sumar þannig að ég ætla að njóta þess til hins ýtrasta að vera eitthvað öðruvísi svona einu sinni(hmm?:))...mohohohoho

Fór í fyrstu hringferðina sem driverguide með 8 spánverja þar af einn á við 4 sem var eins og 5 ára krakki. Áskorun sem hægt er að fá í svona ferðum. Á endanum fór ég að beita jákvæðnisaðferðinni á hann. Veitti honum athygli og jákvæðni þegar hann sagði eða gerði eitthvað jákvætt (í mínum augum) og ignoraði hann þegar hann var að tauta einhver leiðindi. Þetta svínvirkaði á kauða og allt gekk eins og í sögu...:) Þau voru búin að ferðast um allan heim og héldu að þau hefðu séð allt en þau héldu að kindurnar væru geitur, tvíreykt kindakjöt væri svínakjöt, hópur af svönum uppi í fjalli væru mjallahvítar kindur og klunnalegur svanur á rölti meðfram veginum væri sko ekki svanur því þeir væru svo glæsilegir og ALLTAF á vatni. Sem betur fór hittum við fyrir 2 stórglæsilega geithafra með megahorn sem afsannaði geitakenninguna, kjötið fór að jarma, kíkirinn afsannaði hvítukindakenninguna og fuglabókin sýndi ísl.svani og nafnið á spænsku. En þau voru ekkert smá skemmtileg að öðru leyti og við sáum hnúfubaki, flórgoðahreiður og lóuhreiður, húsönd og straumönd, hreindýr og seli o.fl. Alveg frábær ferð!

Í júní vikulangt plöntugreiningarnámsskeið á Hvanneyri sem var ekkert smá mikið fjör og ég lærði ótrúlega margar plöntutegundir og nú getur maður ekki hætt að glápa eins og hálfviti út um allt í leit að plöntum, ekki það að hálfvitar eru líka ágætir. Svo eigum við að gera plöntusafn með slatti mörgum plöntum. Í ágúst fer ég svo á eitthvað landgræðslunámsskeið í Gunnarsholti.

Og ef einhver ekki vissi að þá er hægt að brjóta rifbein með hósta og það er vont:) Ég er farin að verða svolítið þreytt á því að hósta en það hefur verið mjög vinsælt sport hjá lungunum í mér síðan fyrir páska. Ég má ekki hreyfa mig spönn frá rassi og þá hósta ég eins og hross í klukkutíma eða svo. Svo hefur það komið tvisvar fyrir að ég hef brotið eða brákað rifbein út af honum. Hversu heimskulegt er það eiginlega?

Speki mánaðarins: Maður á frekar að vera 5 mínútum of seinn í þessu lífi heldur en 50 árum of snemma í því næsta! (Maggi skipstjóri)

Over and out, takk fyrir þolinmæðina, eigið góðar stundir...
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?