Sannleikur hversdagsins

fimmtudagur, september 30, 2004

Kýr að bera...

...hross hneggjandi fyrir utan gluggann, traktór keyrir um á fullu, kennarinn þrumar yfir fjöldanum fróðleik um nautgriparækt í Nýja-fjósi, lætur nemendur beygja orðið kýr í eintölu, fleirtölu, með og án greinis. Ekki lætur það öllum vel í hendi og huga.

Fyrstu þrjár vikurnar hér á Hvanneyri fóru sem sagt í það að allir nemendur á fyrsta ári (alls 34) í háskólanum þurftu að læra snefil af öllu því sem kennt er á háskólastigi við LBH. Bæði til að kynnast náminu og hinum nemendunum. Nokkrar vettvangsferðir voru líka farnar um Borgarfjörðinn og núna er maður loksins farinn að kunna fjöllin og áttirnar utanað (bara 3 áttir hér), bæjarnöfnin, fólkið sem býr á bæjunum, hvað það borðar og hvernig það er skylt... Mjög nytsamlegt.
En núna erum við sem sagt komin á kaf í námið og mér líst bara helv. vel á það. Bara soldið mikið að læra þegar mann langar til að gera allt annað líka...

Hummer er svo léttur á sér núna að hann hangir bara alla daga í trénu hálfur uppúr og er byrjaður í foreldraleikfimi á spennu aftur. Ég reyndar veit samt ekki hvort hann er búinn að éta börnin eða ekki. Vonandi fer ég þó að sjá skoppandi barnabörn fljótlega.
Kjarval kynntist brekkusnigli hérna í sveitinni um daginn, sem var líka bi eins og hann. En því miður urðu deitin bara tvö þar sem brekkusniglinum fannst alveg nóg að bera húsið sitt á bakinu á deit en að hann þyrfti að taka með sér súrefniskút líka. Kjarval er því frekar leiður þessa dagana.
|

miðvikudagur, september 22, 2004

Hummer er þokkalega...

...búinn að losa sig við eggin og nú verður spennandi að sjá hvort litlir hummerar og hummerur fari að kíkja uppúr sandinum. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að þrífa búrið hjá þeim, gæti skolað einhverjum varnarlausum barnabörnum í vaskinn. En samkvæmt gæludýraráðunauti að þá á Hummer alveg að geta átt börn með sjálfum sér... oj bara creepy! Ætli þetta flokkist undir blóðskömm???

Síðustu þrjár helgar eru búnar að vera alveg sérlega gefandi.

Fyrsta helgi, föstudagskvöld fórum við nokkur í miðnætursiglingu á slöngubátum. Það var háfjara dauðans og öll sker og ekkisker uppúr sjónum. Aldrei séð annað eins. Það var mikil ölduhæð þegar við komum út að Gróttu svo við fórum bara í Kópavog þar sem var ládauður sjór. Þar inni í vognum var frekar grunnt og með góðum ljósum var hægt að skoða draslið á botninum. Við eignuðumst þarna litla vini sem reyndar sögðu ekki til nafns en voru ákaflega hamingjusamir með að vera í sviðsljósinu. Þetta voru svona 3-5 cm löng dýr, með stór gáfuleg augu en einkar skrítin í laginu og ljóssækin.
Daginn eftir fórum við Teddi og Pálmi með Nonna bró í Herdísarvík til að hjálpa honum við að safna plöntugræðlingum uppi í klettum. Við Nonni björguðum tveimur fílsungum á leiðinni og slepptum á Hlíðarvatni. Svo sáum við hvar stór, dökkleitur fugl kom siglandi á fleygiferð með þvílíkt kjölsog á eftir sér. Það var væntanlega himbrimi á leiðinni að drepa greyin... Það voru þá björgunaraðgerðir í lagi.

Nonni var búinn að finna þarna hraunrennslishelli fyrir nokkru síðan án þess að vera með ljós, þannig að tínslunni var startað með hellaskoðun. Þessi hellir er mjög falinn og ólíklegt að nokkur hafi komið inn í hann áður því var hann skírður Jónshellir. Þessi hellir er um 250m langur, með óhemjufallegum dropasteinum og ýmsum hraunmyndunum og í gegnum loftið komu sums staðar plönturætur sem náðu alveg niður á gólf. Þarna mátti líka sjá lambabein komin mjög til ára sinna. Það var búið að falla slatti úr loftinu þannig að við urðum að fara mjög gætilega, líka til að hreyfa ekki við dropasteinunum. Það var hægt að standa uppréttur á nokkrum stöðum en yfirleitt varð maður að vera hokinn og sums staðar að skríða. Svo var tínt slatti af plöntum uppi í klettum í algjöru draslbergi sem var mjög varasamt og það borgaði sig ekki alltaf að kippa of mikið í tryggingarnar...

Keflavík rokkaði feitt á Ljósanótt og Jana er súpergestgjafi. Mér finnst reyndar ekki sniðugt að ég festist á filmu við að syngja ókristilegar vísur... Nú verð ég að borga henni mútur í hverjum mánuði.

Helgi tvö eyddi ég uppi í Kalmanstungu rétt hjá Eiríksjökli sem þau eiga (hversu kúl er það???) við smölun kringum Strút á fös, söng og gleði á bænum öll kvöld og svo Fljótstunguréttum á laugardegi. Sá ekkert eftir því að hafa svikið lit og sleppt Skeiðaréttum því þetta var geggjað fjör. Og ég og hesturinn hann Bakkus (viðeigandi nafn) vorum sko góðir pallar.

Helgi þrjú fór í þau fíflalæti að ganga frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk á sem skemmstum tíma. Það voru 11 sem fóru, fyrsti fór á 10t04m en við Herdís rákum lestina á 14t52m. Bara mjög sátt við það, bætti fyrra met um 2 klst mohohoho... Sjá líka ferðasöguna hennar Herdísar.
|

mánudagur, september 06, 2004

Jæja nú eru hvítu augabrúnirnar mættar aftur...

...eftir laaaaaangt sumarfrí. Bara svona smá um hvað er nú búið að gerast síðan síðast...hmmm látum nú sjá.... Hringferðin var æææææði með frábæru Bretana mína. Þvílíkt skemmtilegt fólk þótt meðalaldurinn væri yfir meðallagi. Gerði engan stórvægilegan skandal með þau en labbaði óvart aðeins of langt með þau í Dimmuborgum en það var mikið blíðskaparveður svo það gerði nú ekkert til, þau höfðu bara gott af þessu. Komst ég að því að ég væri norn inn við beinið því alltaf þegar ég sagði að það væri nú fínt ef eitthvað myndi gerast t.d. koma rigning, sól, hreindýr, rok að þá gerðist það, sama hve ólíklegt veðrið var til að breytast. Þau reyndar byrjuðu að tala um þetta að fyrra bragði hvað þetta væri dularfullt og þetta var soldið spooky. Tvö voru með hósta og var það ekki til að draga úr nornatrúnni þegar ég lét bílstjórann stoppa og rassakastaðist út í móa og fór að reyta plöntur í te handa hóstafólkinu (skv.fyrirmælum Nonna bró) , sem reyndar svínvirkuðu. Algjör snilld!!! Eftir ferðina kláraði ég sumarið í hvalnum og var líka að vinna sem snjósleðaguide á Langjökli sem var algjör snilld. Þvílík skemmtilegt. Skrattaðist 10km í Reykjavíkurmarathoni og lifði af, alltaf gott að vera lifandi.
Er núna flutt á Hvanneyri, er með gamla númerið mitt ef einhvern langar að spjalla. Nú og svo er þetta nú bara klst. akstur frá Reykjavík og alveg hægt að skreppa í kaffi... Segi meira frá Hvanneyri seinna.

By the way... Hummer er búinn að vera óléttur soldið lengi þannig að nú verð ég kannski bráðum amma og ef einhver vill leggja inn pöntun fyrir barnabörnunum mínum að þá er það hægt. Mjög harðger gæludýr þessir slóvensku ferskvatnshumrar. Hann er núna að háma í sig kínakál og naga bréfaklemmurnar sem ég festi á það til að hann næði í það. Hvítkál flýtur nefnilega...


Myndir sem ég tók í ferð á Hvítárvatni
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?