Sannleikur hversdagsins

mánudagur, mars 20, 2006

Norðurland rokkar feitt

Slökkviliðspartí aldarinnar
Þá er komið að ferðasögu sveitavargsins á Norðurland oh yeah baby!!! Norður fékk ég far með Lilju og Vagga á fimmtudaginn sem auðvitað var gaman enda sómafólk:) Svo þegar við vorum að nálgast Akureyri hringdi ég í Kristínu Kötlu sem tilkynnti mér það að við yrðum að flýta okkur því leið okkar lægi í slökkviliðsmannapartý. Þetta var náttúrulega sjokk fyrir kvenkyns Hvanneyringsvarg sem sér aðallega kvenkyns verur dags daglega. Þarna fórum við sem sagt fjórar í partí í fullt hús af karlmönnum. Það var auðvitað bara eitt að gera í stöðunni og það var að byrja aftur að drekka enda 40 daga áfengisbannið löngu runnið á enda:) Svo var dælt í okkur áfenginu með stórri slöngu sem dældi vel 4 lítra á klukkutímann (örlitlar ýkjur). En við komum ekki heim fyrren hálffjögur um nóttina eftir frekar ódýrt og skemmtilegt skrall...

Þynnka í lausum hæl með stæl
Megnið af föstudeginum fór í þynnku og líka að ná í bílaleigubílinn hennar Kötlu sem reyndist vera lítill kassabíll sem þurfti að ýta upp brekkur en varð sjálfrennireið niður brekkur. Eftir einn sveittan borgara á Greifanum fórum við að rúnta um Akureyri. Um sjöleytið kom svo fríður flokkur manna og kvenna, aðallega kvenna af Hvanneyri og úr Borgarnesi... Og var ákveðið að skella sér upp í Hlíðarfjall til þess að fylgjast með atburði á Telemarkfestivalinu: stökkkeppninni miklu. Reyndar komum við svolítið seint en það var mjög gaman að fylgjast með öllum ótrúlega góðu telemörkurunum sem þeystu niður brekkurnar í lausum hæl með stæl...
Svo gáfum við skít í Akureyri sem átti enga gistingu fyrir okkur, þetta frábæra fólk...hnus og skelltum okkur í gósenvíkina Dalvík. Við gistum flest (5) báðar næturnar í skíðaskálanum á Dalvík en nokkrar (4) á Akureyri. Á föstudagskvöldinu kíktum við á aðalpleisið á Dalvík, Bakarann, sem kom bara nokkuð skemmtilega á óvart. Þarna fengum við forsmekk að tónlistarsmekk norðanmanna: Sylvía Nótt og Ruslana eru í hávegum hafðar... Sitt sýnist hverjum um það!

Hvanneyri og Borgarnes hertaka skíðasvæði Dalvíkinga

Á Dalvík áttum við ekki bara skíðaskálann fyrir okkur heldur líka lyftuna, fjallið og loftið og 7 metrar úr húsinu í lyftuna, þvílík hamingja. Reyndar þá var ekkert brjálæðislega mikill snjór en alveg nóg samt. Það var líka geggjað gott veður mestallan tímann og undur og stórmerki gerðust þegar ég náði Telemarka smá án þess að líta út eins og fótalaus rækja á svelli. Svo var gerður stökkpallur og jafnvel vargurinn skellti sér nokkrar ferðir sem reyndar enduðu svo flestar í misfallegum stellingum á rassinum eða andlitinu:) En þetta var ógeðslega gaman og hópurinn alveg frábær. Eftir að hafa haft hamskipti í sundlauginni í Þelamörk skelltum við okkur á tjúttið á Akureyri þar sem var nú heldur betri "fiskmarkaður" en á Kollubar :) Héldum aðallega til á Kaffi Amor þar sem við héldum áfram að hlusta á Ruslönu og Sylvíu Nótt... Frekar einhæfur tónlistarsmekkur þarna nyrðra... Þarna voru margir telemarkarar og einn þeirra vildi ólmur fá að sjá Team Hvanneyri á næsta ári... Hmm, sjáum nú til með það! Það væri nú gaman að sjá það, kannski hægt að hafa "fagurleika við fall"-keppni:) mohoho

Þriðja skíðasvæðið tekið í nefið
Já þegar fólk bregður sér Norður þá er nú ekki hægt að láta nægja bara Akureyri og Dalvík heldur á sunnudeginum skelltum við okkur líka í Tindastól, skíðasvæði Sauðkræklinga. En þar var frekar mikið harðfenni en samt mjöög frískandi. Svo var brunað heim á Vesturland með bros allan hringinn og langt upp á enni eftir frábæra helgi:)

Þá fer maður bara að láta sig hlakka til næstu helgi þar sem stefnan er tekin á skíði á Langjökli og í frænkupartí.
|

þriðjudagur, mars 14, 2006

Ísklifur í túnfætinum

Undanfarnar vikur eru búnar að vera fullar af lærdómi en líka smá skemmtun inná milli. Um síðustu helgi fórum við Lilja, Ásgeir og Árni eldsnemma morguns að kíkja á ísfossa hér rétt hjá, nánar tiltekið við bæinn Skeljabrekku. Viti menn, ísinn var alveg brilliant og tilvalinn til æfinga. Við klöngruðumst upp gil og settum upp tryggingu fyrir ofan fossinn þar sem við svo æfðum okkur í ísklifri. Fossinn reyndist vera 25 metra hár og var hann ágætisáskorun miðað við fremur slakt ísklifurform... Lilja og Árni voru að ísklifra í fyrsta skipti og stóðu sig mjög vel:) Alveg frábær "fyrir hádegi á prófatíma"-ferð... Ásgeir og vinir hans höfðu verið að massa og bóna bíla fram eftir kvöldi og hann var því fyrir ofan við tryggingarstörf. Svo tók hann bílinn minn og fór með hann í mössun og bón án þess að ég fengi nokkuð um ráðið og ég fæ að borga í bjór og dietkóki. Vá hvað bíllinn minn er orðinn flottur núna, hann er meira að segja rauðsanseraður:) Ég er búin að gera við hjólið mitt og nota það mikið svo ég óhreinki ekki fína, hreina bílinn minn...

Wannabe telemarkari

Í dag fórum við Lilja, Anna Lóa og Siggi Frigg á skíði í Bláfjöll. Komum þegar verið var að loka stólalyftunni og þurftum því ekki að borga en gátum samt farið á skíði:) Ótrúlega sniðugir námsmenn... Ég var náttúrulega á telemarkskíðunum mínum en er ekki alveg farin að geta telemarkað í "bröttum brekkum" ennþá og er orðin PÍNU PIRRUÐ. Ég hef það þó til afsökunar að ég ólst uppá mesta flatlendi á Íslandi og áður en ég fékk löngu, velrenni telemarkskíðin mín kunni ég bara að plóga smá og ég er ekki búin að æfa mig nóg! Sem betur fer er skíðaferð um næstu helgi með útivistarklúbbnum á Hvanneyri. Farið verður norður og skíðað fram af sér beizlinu og jafnvel hnakknum líka... Ég skal geta telemarkað hvað sem það kostar....

Ef einhvern langar til þess að sjá skólablaðið á LBHÍ þá er það á netformi hérna
Hér eru tvær myndir frá Lilju af ísklifrinu:|

fimmtudagur, mars 09, 2006

Næstum kominn tími til að sannkristnast

Próf próf próf, það eru alltaf próf... eða alveg 4x á ári, er það nú alveg norm? Dýrafræði hryggleysingja í gær og lífræn efnafræði í dag og svo mat á umhverfisáhrifum á mánudag... Svo á þriðjudaginn hefst ný önn, nýir áfangar og nýtt líf, jibbí!
Svo fékk ég vinnu í gær. Í sumar verð ég að vinna hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti við ýmis störf. Það finnst mér alveg frábært því þá get ég verið heima að stússa allt sem þarf að gera þar, ferðast á eigin forsendum, ásamt því að njóta samvista vina og fjölskyldu. Auðvitað mun fylgja tregi og söknuður því að vera ekki að guida í sumar en fyrst er að setja stóru steinana í krukkuna, svo smásteinana og sandinn síðast...

Í Póstinum (auglýsingablað á Vesturlandi) rakst ég á auglýsingu sem mér fannst brjálæðislega fyndin og næstum því snerist til sannkristni:
Fermingarstarf:
Fótboltakappleikur á Merkurtúni nk.mánudag, kl.16

Sóknarprestur og valdir samherjar á móti fermingarbörnum.
Lið sóknarprests:
Markvörður: Indriði útfararstjóri.
Framherji: Sveinn Arnar, organisti.
Varnarmaður: Þórný kirkjuvörður.
Sjúkraliði: Magnea G. Sigurðardóttir.
Dómari: Helga S. Ásgeirsdóttir

Leiknum verður ekki sjónvarpað!


Svo heyrði ég af honum Flóka presti hér á staðnum að skylmast við krakkana á Hvanneyri sem fannst það alveg stórkostlegt. Já, það skyldi þó ekki vera að kirkjunnar fólk sé að reyna að nálgast börnin á þeirra forsendum...?
|

sunnudagur, mars 05, 2006

Sunnudagshugvekja

í grendinni veit ég um vin sem ég á
í víðáttu stórborgarinnar
en dagarnir æða mér óðfluga frá
og árin án vitundar minnar

og yfir til vinarins aldrei ég fer
enda í kappi við tímann
sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er
því viðtöl við áttum í símann

en yngri vorum við vinirnir þá
af vinnuni þreyttir nú erum
hégómans takmari hugðumst við ná
og hóflausan lífróður rérum

"ég hringi á morgun" ég hugsaði þá
svo hug minn fái hann skilið
en morgundagurinn endaði á
að ennþá jókst milli okkar bilið

dapurleg skilaboð dag einn ég fékk
að dáinn sé vinurinn kæri
ég óskaði þess er að gröf hans ég gekk
að í grenndinni ennþá hann væri

sjálfur ef þú átt góðan í grennd
gleymd ekki hvað sem á dynur
að albesta sending af himnunum send
er sannur og einlægur vinur
|

laugardagur, mars 04, 2006

Gallagall og labbilabb...

...já, ekki er öll íslenskan eins! Alda granni var að kenna mér smá skagfirsku svo að ég skilji hana betur í daglegu máli:) Og af því að ég á frekar að vera að læra ógeðslega mikið fyrir próf þá fannst mér alveg tilvalið að deila þessu með öðrum.

Girðingarlykkjur heita heima hjá henni sinklar.
Þegar maður kallar á skagfirska heimalninga segir maður labbilabb (?) í stað kibbakibb... Þegar maður kallar á skagfirska kálfa segir maður galligall í stað kusakus. Svo heitir borðtuska bekkrýja. Svo heita bjúgu ekki bjúgu heldur sperðlar. Þetta finnst mér alveg yfirmáta merkilegt...:)

Annars er ég auðvitað búin að vera á fullu að læra í dag fyrir utan smá ferð í Borgó og 1 og 1/2 klst af körfubolta sem var þvííílíkt hressandi. Það er líka svo smart að vera allur út í marblettum og rispum.
Framundan er massaæfing á morgun hjá Bjsv.Brák og prófavika úffpúff og reyndar líka að fá að passa köttinn hennar Helgu Magg:)...

Spakmæli dagsins: Fjöldi fólks glatar hlut sínum í hamingjunni. Ekki vegna þess að það hafi aldrei fundið hana, heldur vegna þess að það nam aldrei staðar til að njóta hennar. William Feather
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?