Sannleikur hversdagsins

sunnudagur, mars 28, 2004

Þetta er sjokkerandi. Af þessu korti er greinilegt að ég á eftir að sjá mikið af heiminum. Er að spá í að leggjast í ferðalög næstu 10 árin, er einhver með?create your own visited country map
or write about it on the open travel guide
|
Gamalt dagbókarbrot

Hef ekkert að segja og birti gömul dagbókarbrot... sniðugt ha:)!

Tvind, Danmark. Miðvikudagur 3.nóv.1999
Við vöknuðum kl.7 og fórum í sund. Synti 1000 metra. Fórum í morgunmat og gengum svo til Daníels og sungum fyrir hann afmælissöng. Fórum í herbergið, pökkuðum niður öllu lauslegu, lögðumst til íhugunar. Fórum á fund hjá Sofie (frönsk) og reyndum að finna allt út sem ætti að gera í ferðinn og öll fengum við verkefni. Ég átti að ljósrita kort og hafa control yfir því hvaða gögn við eigum að athuga hvort þau eiga sem gæti nýst við námið. Lóa - tölvuvinna, Daníel - contact, Matt (england)- budget og Siggi - matur. Það var mjög góður hádegismatur aldrei þessu vant og súkkulaðikaka, það bezta hingað til. Eftir matinn fórum við að ljósrita og ætluðum að klappa hundinum brúna, en það eru margir hundar þarna, þá réðst hann á okkur. Við lifðum af. Eftir matinn fórum við af stað á mesta torfærujeppa ever til þess að komast á ferjuna sem við hefðum aldrei getað á puttanum sem við ætluðum. Að vísu þá drapst á honum tvisvar og Matt stoppaði á rauðu ljósi á miðri götunni (eftir að hafa keyrt yfir stopplínuna) og skildi ekkert í neinu af hverju allir voru brjálaðir í kring og við að gera í brækurnar. Svona væru sko ekki umferðarreglurnar í Bretlandi..... Við stoppuðum í Álaborg til þess að kaupa ýmislegt útilegudót samtals 64000 kr. Danny er t.d núna yfir sig ástfanginn af tjaldi sem hann keypti. Við keyrðum eins og moðerfokkers til Hirsdals og við Lóa vorum næstum búnar að fara með korteríeitt ferjunni vegna þess að við vorum svo klárar að finna okkur trailer til þess að fá far með og sleppa við að borga ferjufarmiða (vissum ekki að tailerarnir í okkar ferju væru löngu farnir inn í hana). Sem betur fór uppgötvuðum við það í tíma en pólski bílstjórinn varð frekar svekktur. Við borgðum okkur í ferjuna og náðum 3 mín fyrir brottför, sem sagt nógur tími. Við höfðum það virkilega kósí í ferjunni. Fórum út á dekk, sváfum á gólfinu í einum bíósalnum að vísu virkilega illa því að við heyrðum alltaf reglulega hrikalega hátt í "bátaflugfreyjunni". Við Lóa fórum svona 7 ferðir í leit að bílstjóra á vöruflutningabíl en fundum engann með nógu stóran rass!!!

Noregur, ferjustöð. Fimmtudagur 4.nóv.1999
Við vöknuðum kl. 6:30 til þess að ná einhverjum bílstjóra á trukki. Við fundum einn sem gat tekið Dann a með og þeir ætluðu að hittast fyrir utan. Við átum smá morgunmat og fórum svo út. Við hittum íslending á leiðinni út. Okkur var skutlað inn í tollinn en strákarnir voru þeir einu sem voru tékkaðir. Það voru nefnilega engir kvenmenn þarna í tollinum en við vorum sannfærðar um að það væri bara yfirskin þar sem þeir væru hræddir við okkur... Þegar við loksins komum út voru flestir trukkabílstjórarnir farnir svo að við löbbuðum af stað. Eftir að hafa labbað slatta þá skiptum við okkur í faraáputtanumlið og hukkuðum. Ég og Siggi vorum saman í liði og þurftum ekki að bíða lengi eftir að fá bíl því að gamall kall kom fljótlega og keyrði okkur smáspöl. Þar kom svo sænskur risakall með sítt skegg og hár í trukki sem var allur í hundahárum og lyktaði eins og illa þrifinn hundur og með honum komumst við til Osló (frá Moss). Eftir að hafa beðið í langan tíma þar kom ein frá Afganistan sem keyrði okkur smáspöl. Þá keyrðum við framhjá Lóu og Matt sem voru að bíða eftir fari. Rétt fyrir utan Osló biðum við í ca 1 og hálfa klst með því að labba afturábak. Loksins fengum við þó bílfar með einni til Hammer og svo aftur með einum til Lillehammer. Við komumst fyrst hópsins á endastað sem var Mc.Donalds í Lillehammer svo ég fór í verslunarferð. Keypti mér sem sagt símakort. Svo komu Lóa og Matt og á endanum Danny boy. Við vorum sótt af einum frá norska skólanum. Þar komumst við í sturtu og fengum almennileg rúm. Við fengum skoðunarferð um skólann sem var allur miklu stærri og flottari og betur búinn en skólinn okkar. Og fólk var meira að segja að læra... Svo þvoðum við fötin okkar sem voru orðin ógeð.
|

miðvikudagur, mars 24, 2004

Dadara

Fór í sund í gær og það var móðir með ca.2-3 ára strák að finna sig til fyrir sundið. Þegar þau voru að klæða sig úr sagði mamman: "Hey, rosalega flottur nafli!" þá svarar snáðinn um hæl: "Hey, rosalega flott brjóst!". Mamman fór alveg í kút og reyndi að útskýra að svona ætti nú ekki að segja... En hvernig er hægt að útskýra fyrir svona kríli að það megi segja "flottur nafli" en ekki "flott brjóst". Ég meina barnið hefur væntanlega fengið sína fyrstu næringu úr þeim, notið þessara mjúku kodda og móðurhlýju og má svo ekki einu sinni segja að þau séu flott.... Ég átti soldið erfitt með að halda aftur hlátrinum. Svo sagði hann þegar hann sá mig setja á mig bodylotion: "Konan er að setja á sig SJAMPÓ..." Algjört krútt.

Já, rétt er að árétta að Kjarval prumpar aðeins þegar maður potar í hann og þegar hann tekur áhættuatriðin sín frægu, hoppar teygjulaust niður úr trjánum eða af veggjunum.
Ég held að ég hafi stytt líf tveggja snigla af því að ég hélt að þeir væru dauðir þar sem þeir lágu á botninum alveg útþemdir og harðir. Svo þegar ég fór að pota í Kjarval þegar hann var svona kom bara fullt af prumpi og daginn eftir var hann farinn á fullt aftur. Hann hefur bara líklega verið að liggja á meltunni.
Hummer er búinn að vera undir steini í heilan sólarhring og hefur ekki einu sinni áhuga á því að borða. Ég er farin að hafa áhyggjur af því að hann sé eitthvað leiður svona makalaus (skil það nú ekki). Kannski er hann búinn að frjóvga eggin sjálfur og er að liggja á. Reyni að gefa honum slátur á morgun.
|

þriðjudagur, mars 23, 2004

Maki óskast!!!

Já þið heyrðuð rétt Hummer er að leita að maka. Ég veit ekki hvort ég á að kalla hann hann eða hana þar sem humrar eru tvíkynjur en að minnsta kosti er Hummer með fullt af eggjum hangandi undir halanum og vantar frjóvgun. Kjarval er búinn að reyna en ekkert gengur. Reyndar er ég ekki alveg viss um hvort hann/hún geti frjóvgað sjálfs síns egg en það verður fróðlegt að sjá hvort komi litlir hummerar út úr þessu. Um helgina skipti ég um vatn á þeim þessum elskum eftir að þau voru búin að fara í hungurverk fall út af óþrifnaði svo ég fór og fékk nýjan sand og skipti um vatn. Svo skrapp ég frá í um tvo tíma og þegar ég kom heim aftur leit ég í búrið og sá hvergi Hummer. Hélt reyndar að hann væri undir stórum steini, svo ætlaði ég að setjast við skrifborðið þar sem búrið stendur og fann einhverja skrýtna tilfinningu undir stóru tánni. Þá lá þar Hummer á bakinu undir tánni á mér og hrópaði í háværri þögn: "mamma, mamma ekki drepa mig með stóru tánni!!!" og baðaði út öllum sínum tíu höndum. Soldið svalt að vera humar sko! En ég slakaði línu niður til hans og setti í búrið aftur og hann náttúrulega veifaði mér í þakklætisskyni fyrir björgunaraðgerðirnar. En núna er ég sem sagt búin að komast að því hvers vegna hann/hún reyndi að strjúka, Hummer ætlaði nefnilega að fara á stúfana og leita sér að ektemanni/kvinnu.
Fyrir þá sem ekki þekkja Hummer og Kjarval þá er Hummer svona lítill blár hraðskreiður vatnahumar og Kjarval er stór brúnn hægfara eplasnigill.
Ættbók: H:Hummer barn hjónanna Stóru Klóar af Bognuklóaætt og Skakka Hala af Sumarhumarslóðaætt. K: Kjarval barn listasniglahjónanna Slepju af Vatnafallasniglaætt og Sleipa af Brekkufossasnegluætt.
Kyn: H og K: Hvorukyn
Ótvíræðir kostir: H: Sprækur, uppátækjasamur, ekki matvandur, sólginn í slátur, hljóðlátur. K: Yfirvegaður, sólginn í gúrku, hljóðlátur, skynsamur.
Helstu ókostir: H: Á það til að svipta klæðum fyrirvaralaust (hamskipti), óþolinmóður þegar hann fær ekki matinn sinn og ræðst á Kjarval. K: Á það til að vera þunglyndur og stökkva út úr búrinu, leyfir Hummer stundum að borða sig, á það til að þykjast vera dauður en hefur enn ekki endað í klósettinu, prumpar stundum ferlega.
|

miðvikudagur, mars 17, 2004

Flóð

Jæja þá er erfið helgi að baki. Þrjú afmæli þar af eitt beizlislaust, ein árshátíð og langur þynnkulaugardagur er ekki á nokkurn mann leggjandi enda vogaði ég mér ekki að drekka dropa á laugardagskvöldinu. Fór á leiðsögubekkjarárshátíð sem var skemmtilegt að fara á að vanda. En auðvitað þurfti ég að lenda í næstu árshátíðarnefnd. Við erum þrjár sem skipuleggjum næst og erum allar titlaðar sem formenn, mjög sniðugt.

Svo fór ég eitthvað að spá í bungunni sem er búin að vera í smátíma í herbergisloftinu mínu sem ég hélt að væri bara svona bólga, en þessi bólga reyndist vera svolítið lin bólga, öllu heldur vatnsbóla. Ég fór niður að spyrja þau á neðri hæðinni hvort maður ætti ekki að sprengja svona bólur í lofti og maðurinn kom upp til að kíkja á þetta. Ég ætlaði bara aðeins að sýna honum hvernig bólan hreyfðist og nottlega potaði ég í gegnum loftefnið og það byrjaði að fossa niður vatnið. Við áttum fótum okkar fjör að launa því þarna komu örugglega nokkrir lítrar niður af gulnuðu vatni. Ferlega mikið fjör. En það er sem sagt ekki víst hvort rafnudd verði í boði hjá mér næst þegar kemur óveður. Líklega á vatnið eftir að fara niður þarna í gegnum putta gatið í staðinn fyrir gatið hjá ljósinu.....

Uppgötvanir gærdagsins:
1. Komst að því að þegar maður skrifar niður heimilisfang á miða á stað sem maður er að fara á er betra að hafa hann með til að vita hvert maður er að fara...
2. Þegar maður keyrir heim til þess að ná í miða með heimilisfangi og ætlar að flýta fyrir sér með því að losa húslyklana af lyklakippunni til þess að þurfa ekki að drepa á bílnum, þá borgar sig ekki að gera það á ferð því þá getur bíllinn drepið á sér... Have I said too much?

|

miðvikudagur, mars 10, 2004

Dropameðiferð

Dagurinn í dag byrjaði fínt. Eftir að hafa tekið 15mín í það að skilja að í huganum heimasímahringinguna, símapípið úr stóra geimstöðvarsímanum mínum og vælið í vekjaraklukkunni þá áttaði ég mig á að nú væri víst kominn tími til að vakna... Ég á alltaf jafnerfitt með að átta mig á þessu á morgnana þótt að ég hafi lifað í yfir 9300 daga og eftir meira en 9300 daga þá hef ég ekki enn lært að fara snemma að sofa og heldur ekki að vakna á réttum tíma. Ég er að spá í að æfa mig í 10000 daga í viðbót og sjá hvort ég fari ekki að sjá einhvern mun.
Að minnsta kosti fór ég í helförina miklu í Hreyfingu klukkan korter í sjö þar sem aldeilis var tekið á í spinning og fleiru. Var reyndar með smá harðsperrur eftir klifur í gær þannig að ég ákvað að vera bara nokkuð næs við sjálfa mig og vera ekki eins lengi og vanalega. Fór heim og lagði mig og svaf örlítið yfir mig eftir að hafa fengið frekar SCARY draum sem endaði á því að ég var lamin í hausinn af brjáluðum manni með vodkaflösku sem splundraðist (vodkaflaskan sko). Einhver góður að ráða drauma???
Svo fór ég í photoshop, í mínum ástkæra Iðnskóla, sem ég hélt að ég væri farin að skilja smá í. En komst að raun um annað. Auðvitað er ég soldið puttaóð og tókst einhvern veginn að eyða 2/3 af verkefninu sem ég var að vera búin með, með því að ýta á einhvern andsk. takka. Ég þurfti svo að gera allt upp á nýtt og að sjálfsögðu var það ekki nóg því ég eyddi óvart öllum breytingum í lok tímans í fljótfærni. Í stað þess að láta svona heimska tölvu eyðileggja daginn fyrir mér (þetta var auðvitað allt tölvunni að kenna) þá dró ég djúpt að mér andann, slökkti á kvikindinu og labbaði út í óveðrið... ahhh.

Ef einhver hefur áhuga þá er ég að byrja með nýja dropameðiferð í heimahúsi. Það lekur nefnilega svo skemmtilega úr loftinu hjá mér, mjög taktfast sko sérstaklega þegar rignir mikið. Held að úr þessu gæti orðið ágætismeðferð þar sem fólk myndi bara leggjast á gólfið þar sem fatan er núna og látið dropa á þá staði sem þyrftu meðferðar við. En eins og allir vita þá getur sko dropinn holað steininn. Hmm kannski væri hægt að framkvæma lýtaaðgerðismeðferð líka. En svo er þetta akkúrat þar sem ljósið er þannig að ef það fer að síleka þá væri örugglega hægt að bæta smá rafnuddi inn í meðferðina. How about that??? Jæja nú er ég farin að sofa í hausinn á mér.

Setning dagsins (sagt af góðri konu um mann sem er með mjög mikið hár út í loftið): "Hann er nú kannski ekki mjög sjarmerandi sem karlmaður, en hann yrði örugglega mjög sjarmerandi KAKTUS".
|

sunnudagur, mars 07, 2004

Fyrsta færslan

Jæja, þá hefur tölvuheiminum verið sagt stríð á hendur, Halla er mætt á svæðið!!!!
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?