Sannleikur hversdagsins

mánudagur, febrúar 27, 2006

Dagurinn í dag...

...byrjaði á því að ég fór í fjósið fyrir allar aldir með Elínu fjósakonu. Var búin að fara einu sinni áður í "starfskynningu" með Hrafnhildi og Ragnari. Þar lýsti ég yfir áhuga á að fá að mjólka aftur og það gerðist sem sagt í dag. Það er alltaf jafn dásamlegt að finna fjósalyktina streyma um vitin og draga þann dásemdarvökva mjólkina úr þeim yndisskepnum blessuðum kúnum. Ekki skemmdi fyrir að kötturinn Rjómi fór á kostum. Við það þegar mjaltirnar voru að hefjast þá sat kauði skælbrosandi í fötunni þar sem skítugu tuskurnar fara, alveg þangað til að honum fannst full mikið komið af ógeðstuskum. Þá flutti hann sig í vaskinn og fór að þvo sér... Þetta er brosmildasti köttur í heimi og eini kötturinn sem ég hef séð slefa...haha

Í dag fluttum við kynningu á frummatskýrslu í Mati á umhverfisáhrifum á efnisnámi úr árfarvegi fyrir austan. Alls 8 hópar fluttu sama verkefni í undanförnum tímum. Hljómar leiðinlegt? Já, en allir fengu hlutverk hinna ýmsu aðila og áttu að spyrja um hitt og þetta sem gerði þetta mjög líflegt.

Í hádeginu var fundur um utanlandsferð. Já, ég er sem sagt að fara í ferð til norðurlandana með 2.ári í búvísindum og skógfræði í ágúst.
Eftir fyrirlestur í Dýrafræði hryggleysingja þurftum við að greina í sundur pöddur. Af hverju geta pöddur ekki bara verið pöddur!
Eftir það fór ég með Önnu Sif að aðstoða í ótrúlega skemmtilegu verkefni. Fór reyndar með Braga fyrir stuttu í sömu erindagjörðum. Fæ kannski að birta myndir af þessu hjá þeim.

Er búin að vera að spá í því að gera eitthvað annað en að guida í sumar. Prófa það amk og eiga kannski smá tíma fyrir vini og fjölskyldu og ferðast upp á eigin spýtur... Hvað af verður veit nú enginn.... og heldur ekki ég...

Spakmæli dagins: Hlustaðu 1000 sinnum, hugsaðu 100 sinnum en talaðu aðeins einu sinni! Kínverskt spakmæli
|

laugardagur, febrúar 25, 2006

Undanfarnir dagar hafa verið þvílíkt fallegir, set bara inn myndir. Tvær fyrstu eru frá í gær og síðasta af Hafnarfjalli í dag (Hvanneyri til hægri). Það er bannað að taka þessar myndir án míns leyfis!|

mánudagur, febrúar 20, 2006

Hvanneyri að vakna

|

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Allt er þegar fernt er...

Fjögur störf sem ég hef gegnt:
-Þjónn og barþjónn á ýmsum hótelum og veitingastöðum
-Skúringarkona í Hegningarhúsinu
-Háseti á línubát í Barentshafinu
Svarti bletturinn: -Flokka og pakka grænmeti í Ástralíu, var ólögleg, laug (um að ég væri með vinnuvísa), var rekin á einum staðnum ásamt 5 öðrum fyrir að mæta ekki í vinnuna einn morguninn svo vorum við grátbeðin um að koma aftur 2 dögum seinna...

Fjórar kvikmyndir sem ég get horft á aftur og aftur:
-Stella í orlofi
-Svartur köttur, hvítur köttur
-Monsoon Wedding
-Touching the void


Fjórir staðir sem ég hef búið á:

-Flóinn (það er bara einn Flói með stóru effi)
-Estremoz í Portúgal
-Öksfjord í Norður Noregi
-Tvind, Ulfborg í Danmörku


Fjórir sjónvarpsþættir sem ég dýrka að horfa á:

-Fréttirnar á RÚV (borgar sig ekki að reyna að tala við mig á meðan)
-Sex and the city
-Náttúrulífsþættir með David Attenborough
-Smack the pony (reyndar horfnir af skjánum núna)

Fjórar vefsíður sem ég heimsæki daglega:
www.yahoo.com
www.slbh.is
www.vefpostur.is
www.skoli.is

Fjórir af uppáhaldsréttum/mat
-Chicken quesadilla á Ruby Tuesday
-Pato com arroz eða steikt önd í hrísgrjónum með chorico pylsu yfir
-Sunnudagslambalærið hennar mömmu með nýuppteknum kartöflum og rabbasultu
-Plokkfiskur eins og matráðskonan úr barnaskóla Ólöf í Hrygg býr til og enginn getur gert eins


Fjórir staðir sem ég hef komið á í fríum

-Mozambique - fallegt land og dásamlegt fólk
-Viktoríufossarnir á mörkum Zimbabwe og Zambíu - stórkostlegur staður
-Full moon party á Koh pan Ghan í Thailandi - stærsta og leiðinlegasta partí ever
-Skaftafell - oft borgar sig ekki að leita langt yfir skammt...

Fjórar bækur sem ég les oft
-General, organic and biochemistry (uppáhaldið núna)
-Íslenskur fuglavísir
-Íslands handbókin
-Íslensk fjöll

Fjórir staðir sem ég vildi frekar vera á núna:
-Í fjallakofa í góðra vina hópi, með kerti, spil og góðan svefnpoka
-Í miðjum Amazon regnskógunum í mjög þéttu flugnaneti
-Í langri gönguferð í Himalayafjöllunum í Nepal
-Á Galapagoseyjum að skoða allt það skrítna sem finnst þar

Og þeir fjórir sem ég ætla að skora á að gera svona vitleysu eru: Helga Magg, Ranka, Inga Rúna og svo bara þeir sem vilja...
|
Eldur úr eyrum

Alveg dagsatt!!! Það er sko málið að það er búið að vera að ganga á milli manna svona ecco cones stönglar sem notaðir hafa verið af indjánum til að hreinsa á sér eyrun. Actually hreinsa út úr eyrunum í stað þess að troða inní með eyrnapinna þau eins og við gerum stundum... Þetta er sem sagt búið að ganga á milli manna vegna þess að enginn hefur verið svo vitlaus að prófa þetta þangað til í kvöld.
Framkvæmdaraðili var Alda nágranni sem framkvæmdi þessa miklu aðgerð á eyrunum á mér í kvöld til að kanna hvort þau væru full af skít þrátt fyrir samviskusamlega unnin eyrnapinnastörf í gegnum tíðina.
Gjörningurinn fer þannig fram að fórnarlambið leggst á hliðina á meðan gjörningamaðurinn setur svona hólk úr líni og vaxi í eyrað og kveikir í... Svo logar þessi fallegi logi og gjörningamaðurinn þarf svo að klippa alltaf fyrir ofan eldinn svo það detti ekki aska. Í lokinn er svo fullt af gömlum mergi (rímar við:af gömlu bergi brotinn) kominn í hólkinn. Þetta var mjög fyndið, örugglega svínvirkaði og hárið á mér sviðnaði eiginlega ekkert...:) Heill sé indjánum!!! Úgg!
|

mánudagur, febrúar 13, 2006

Dómnefndin þakkar þátttakendum í keppninni...

...um að vera gestur númer 8000 kærlega fyrir þátttökuna og drengilega keppni. Keppendur sýndu mikla sanngirni og sterkan jákvæðan keppnisanda. Niðurstöður liggja ljósar fyrir: í fyrsta sæti númer 8000 er Sigrún staðarbúi sem hlýtur að launum leiðsagða ferð um Hvanneyri með staðarbúa að eigin vali. Í öðru sæti númer 7999 var Davíð og í þriðja sæti númer 7998 var Ásgeir og hljóta þeir báðir í viðurkenningarskyni leiðsagða ferð í fjósið með staðarbúa að eigin vali. Keppninni er hér með lokið!

Alvarlegt fjölskylduástand

Sem áður hefur verið rætt um hefur fiskunum í fiskabúrinu fjölgað mjög en enn hefur fiskamóðirin ekki fengið að umgangast börn sín. Fiskinum Guðrúnu hefur verið haldið aðskildri frá seiðunum frá því þau fæddust vegna mikils fæðingarþunglyndis. Þetta ástand hennar hefur m.a. lýst sér í því að hún sækir mikið í að ofsækja seiðin sín og fisksins GB, kalla þau ýmsum ljótum nöfnum eins og blúbbi, marhnútur og skítseiði og ýmislegt fleira óprenthæft. Jafnvel hefur borið á því að hún hafi reynt að éta börnin sín sem sýnir afar slæmt andlegt ástand hennar. Tilraunir hafa verið gerðar í því skyni að leyfa henni að kynnast þeim betur og sjá hlutina frá þeirra sjónarmiði ásamt róandi lyfjagjöf. Þetta hefur ekki borið tilætlaðan árangur og óvíst er hvaða áhrif þetta hefur um sjálfsmat seiðanna. Fjölskyldan er þó bjartsýn á framtíðina og heldur í vonina um bætt ástand...
|

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Brátt gerist sá merki atburður að bloggið nær 8000ustu heimsókninni. Sá heimsóknargestur sem verður númer 8000 fær í verðlaun leiðsögn um Hvanneyri með staðarbúa að eigin vali...
|
Ef...
...blettatígrar eru bleikir með hvítar, bláar og gular skellur hér og þar þá er ég blettatígur. Er búin að vera undanfarna daga að hjálpa mömmu að mála veggi og flytja búslóð ásamt mörgum öðrum. Merkilegt hvað það eru margir harðsperruhæfir vöðvar á mannslíkamanum. En kellan er nú flutt á Selfoss eftir 30 ára búsetu heima í sveit og Nonni bróðir og fjölskylda eru svo að flytja þangað. Verð nú að viðurkenna að það var nú hálf undarlegt að standa í hálftómu húsinu heima eða ekki heima...

Ég tek ofan fyrir bóndanum í Skipanesi í Borgarfirði sem lagði stórum traktór fyrir ljósleiðaralínuframkvæmd Orkuveitu Reykjavíkur. Það gerði hann vegna þess að þeir voru að fara yfir landið hans án þess að vissa um réttlæti þess lægi ljóst fyrir. Þessi tautar nú ekki bara með hor í nös í moldarkofa hugans heldur mótmælir að frönskum sið... Vive le protestant!!!
|

mánudagur, febrúar 06, 2006

Nýtt eurovisionlag..

Helgin var bara sérdeilis ágæt, fór á Fræðaþing landbúnaðarins á fös sem var afar fræðandi og stóð þar í mínum huga efstur sem fróðlegasti fyrirlesturinn, fyrirlestur um álaveiði og álaeldi. Vissuð þið það að hér við Ísland eru til álar sem dvelja bara í saltvatni, að hingað til Íslands koma næstum því bara hryngnur, svo eru nær bara hængar í s-hluta Evrópu. Hrygnurnar eru líka mun stærri en hængarnir. Þetta er alveg eins og mannfólkið. Lágvöxnu spanjólarnir sækja nú einmitt mikið í hávöxnu íslenskurnar.

Um helgina var hið mjögsvosótta innflutningspartí í Álfhól hjá álfadrottningunni Guðrúnu og álfakónginum Valda. Þar var mikið samansafn af hressum Hvanneyringum. Svo fór ég í afmæli til Elísu þýsku á efri hæðinni kvöldið eftir þar sem voru allskyns gómsætar lífrænar þýskar veitingar, meira að segja lífrænir hlaupkallar.
Til mjög svo skemmtilegrar nýbreytni leit lærdómurinn við heillengi þessa helgi og er honum tekið með fagnandi huga og jákvæðni...:)

Já og svo má ekki gleyma nú er tekin stefnan á heimsfrægð í eurovision um helgina. Ég samdi nýtt eurovisionlag. Að vísu bara nýjan eurovisiontexta við mjög gamalt lag en það er svo gamalt að allir hljóta að vera búnir að gleyma því... Það hét áður Upp upp... en heitir núna Drekktu bjór!

Vers 1
Drekk - drekk - drekktu bjór, drekktu mikinn bjór, ef þú drekkur svona mikið þá verðuru bráðum stór!

Vers 2
Drekk - drekk - drekktu bjór, drekktu mikinn bjór, (sungið mjög hratt) en kannski færðu bara niðurgang og þynnku, (sungið venjulega) eftir svona þjór!

Það á örugglega eftir að fá harða samkeppni frá Sylvíu Nótt því bakraddirnar eru ekki af verri endanum: Madonna, Bono og Britney Spears en enn vantar flytjanda lagsins... Einhver sem býður sig fram?
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?